22.09.1919
Efri deild: 62. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 470 í B-deild Alþingistíðinda. (157)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Kristinn Daníelsson:

Jeg á brtt. á þgskj. 935, er jeg vona að allir háttv. þingmenn geti samþykt, enda háttv. framsm. (E. P.) fremur mælt með henni, og ekki til mikils mælst. Hjer á í hlut gamall og góðkunnur fræðimaður, Sighvatur Gr. Borgfirðingur, og hækkunin, sem farið er fram á, er örlítil. Hann hefir altaf átt að búa við fátækt, en hefir með lífi og sál stundað íslensk fræði og ritað afarmikið. Hann er nú orðinn hniginn að aldri og ófær til vinnu, en samt er hann enn altaf síritandi. Jeg vænti að þessi litla tillaga verði samþykt.

Jeg hefði hug til að ræða fleiri brtt., en vegna þess, að jeg vil spara tíma háttv. deildar, vil jeg að eins drepa á örfáar.

Jeg vil styðja till. nefndarinnar um að veita skólanum í Bergstaðastræti styrk.

Á síðasta þingi var skólanum synjað um lítilfjörlegan styrk, en þrátt fyrir það hefir hann haldið áfram, og er það ljóst dæmi þess, að hann hefir verk að vinna. Það er og viðurkent, að hann hefir góða kennara. Jeg mæli því með till. nefndarinnar.

Þá er till. á þgskj. 933, um styrkinn til ungfrú Önnu Bjarnadóttur. Eins og háttv. þm. Ísaf. (M. T.) hefir skýrt frá, þá hefir hún óvenjulega góða vitnisburði, en þar sem hún ætlar til Englands til náms, þá getur hún ekki vænst styrks annarsstaðar frá en frá þinginu. Jeg vona, að menn láti hana ekki gjalda þess, þótt aðrir stúdentar hafi ekki fengið áheyrn. En í sambandi við þetta vil jeg minnast á þá stúdenta, er sigla til Kaupmannahafnar, til að nema fræðigreinar, sem ekki eru kendar hjer. Þeir, sem nú hafa farið utan í þessum erindum, hafa verið að senda símskeyti hingað heim og vonast eftir að fá styrk, en svarið hlýtur að verða nei, og afleiðing mun verða sú, að einhverjir þeirra verði að hverfa aftur heim frá náminu. Jeg vil ekki tala mikið um þetta, því jeg á hjer sjálfur hlut að máli, því einn þessara nemenda er sonur minn. Ef svo hefði ekki verið, hefði jeg flutt tillögu um þetta og reynt að fá aðra háttv. þingm. í lið með mjer.

Fjárveitinganefnd hefir ekki talið sjer fært að sinna þessari málaleitan, en hvernig á þá að ráða fram úr því, svo ekki stefni til afturfarar í vísindum vorum Íslendinga? Mjer hefði þótt vænt um það, ef háttv. nefnd hefði viljað segja eitthvað um þetta í áliti sínu, en eftir því, sem jeg hefi litið til, hefir hvorki fjárveitinganefndin hjer í háttv. deild eða í Nd. gert það.

Við vitum það, að fátækir nemendur hjeðan að heiman hafa brotist áfram með Garðsstyrknum, og sumir þeirra hafa síðar orðið góðir vísindamenn og unnið landi sínu og sjer sjálfum sóma.

Eftirleiðis fá íslenskir stúdentar Garðstyrk eftir sömu reglu og danskir stúdentar, svo að minsta kosti fyrst í stað, meðan hann ekki kemur til greina, er nauðsynlegt að styrkja þá til námsins. Að vísu er það ekki afskorið í stofnskrá sáttmálasjóðs háskólans, að hann geti styrkt þá eitthvað, en hann hefir svo margra annara verkefna að gæta, að það verður ónóg, og þarf því um það að bæta.

En þetta er mesta alvörumál. Því þetta gæti stefnt að því, að hnignaði vísindaiðkunum Íslendinga. Og þetta er sjerstaklega alvörumál af því að háskólinn sjálfur á enn þá enga slíka menn. En það er nauðsynlegt að eiga stofn fræði- og vísindamanna, sem færir eru um að standa í þeim stöðum, sem háskólinn útheimtir, en hins vegar vafasamt, að sá stofn sje til nú, jafnvel þó að eins sje litið á háskólann eins og hann er nú.

Jeg bendi að eins á þetta af því, að mjer virðist hið háa Alþingi ekki hafa brotið þetta nægilega til mergjar.

En hvað svo sem þessu líður, þá vona jeg að þessi nemandi, sem hjer er um að ræða verði ekki látinn gjalda þessara misfellna. Það stendur líka öðruvísi á með hana, enda vona jeg, að styrkurinn til hennar verði samþyktur.