22.08.1919
Efri deild: 37. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1755 í B-deild Alþingistíðinda. (1576)

113. mál, brúargerðir

Magnús Kristjánsson:

Mjer finst ekki einu gilda, hvort fjeð er tekið að láni eða af tekjum fjárhagstímabilsins. En þetta fyrirkomulag má ekki verða til þess, að dráttur verði á byggingu brúanna En þó að ákveðið sje að lán megi taka, er engin vissa fengin fyrir því, að það verði gert, og því síður hve nær það verði. Stjórnin verður að sjá um, að jafnmikið fje verði veitt til brúagerða og ákveðið var til nefndra brúa í fjárlögunum. Jeg verð að beina til hæstv. stjórnar, að hún sjái um, að svo framarlega sem ekki er vissa fyrir, að lánið fáist á þeim tíma, sem til er ætlast, verði upphæðin, sem um er að ræða, tekin upp í fjárlögin.