22.08.1919
Efri deild: 37. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1755 í B-deild Alþingistíðinda. (1579)

113. mál, brúargerðir

Magnús Torfason:

Jeg sje ekki neina ástæðu til að flýta fyrir þessum lögum, eins og nú er ástatt. Alt útlent efni er ákaflega dýrt og flutningur á því ekki síður. Hygg jeg, að heppilegast muni að hrapa eigi að þeim framkvæmdum, sem útheimta útlent efni. Auk þess skal jeg geta þess, að áætlanirnar, sem slík lög sem þessi byggjast á, hafi ekki reynst sem áreiðanlegastar hjá verkfræðingunum okkar. Get jeg í því sambandi tilnefnt vitalögin Mjer finst, að þetta mál geti hvílt sig, þar til betur er rannsakað, hvar þörfin er mest og hver kostnaðurinn verður.

Jeg sje, er jeg lít yfir frv., að t. d. í Ísafjarðarsýslu er engin brú tekin upp í það. Aftur á móti eru 2 brýr í Strandasýslu undir A.-lið I. og 1 undir A.-lið II. Jeg get vel skilið að Vestfirðir þyki út úr og því sje minna tillit tekið til þeirra, en Strandasýsla er þá eigi síður á útkjálka landsins, og mjer er kunnugt, að í Ísafjarðarsýslu eru margar brýr, sem þurfa viðgerðar við, og þar eru mörg fljót, og sum afarill yfirferðar.

Jeg mun því greiða atkvæði móti þessu frv., enda efa jeg stórlega, hvort heppileg sje sú braut, sem háttv. Alþingi virðist komið inn á, að varpa frá sjer fjárveitingavaldinu í hendur stjórnarinnar, svo hún geti farið með það eftir geðþótta sínum.