22.08.1919
Efri deild: 37. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1758 í B-deild Alþingistíðinda. (1584)

113. mál, brúargerðir

Eggert Pálsson:

Jeg vona, að þó að umræður hafi orðið um þetta mál nú á síðustu stundu, nái það samt fram að ganga. Mjer finst frv. vera vel hugsað og til stórra framfara. Það er auðsjeð, að menningin með þessu frv. er að búa til fast brúakerfi. Í líkingu við símakerfið. Ef það hefði ekki verið til. mundi hver þingmaður hafa krafist þess, að hans símaspotti yrði látinn ganga fyrir, og af því hefði stafað sífellur ruglingur. Þetta frv. stuðlar því að því, að koma meira samræmi á við lagningu brúanna. Auk þess getur vegamálastjórinn, eftir þessum lögum, betur farið eftir sínum hentugleikum, t. d. lagt fleiri en eina brú í sama hjeraðinu í senn, svo flutningur og vinnukraftur yrðu ódýrari. Inn í fjárlögin verða svo teknir vextir og afborganir af lánum þeim, sem tekin verða til brúagerða og gjöldunum þannig skift niður á fleiri ár, á sama hátt og gert hefir verið með ritsímann. Útgjöldin yrðu á þann hátt langtum jafnari en verið hefir, er eitt árið hefir verið veitt feikna mikið fje til brúagerða, en annað árið sama og ekki neitt.

Hvað það snertir, að þingið sje útilokað frá að ákveða, hvaða brýr skuli ganga fyrir, skal jeg geta þess, að það á sjer engan stað. Þinginu er að minsta kosti í lófa lagið að fara þingsályktunarleiðina og skora á stjórnina að láta byggja þessa eða hina brúna, sem brýnust þörf sýndist vera fyrir, og efa jeg ekki, að stjórnin mundi fara eftir eindregnum vilja þingsins í þeim efnum. En ef hún þverskallaðist, er samt sá vegurinn opinn, að breyta lögunum á einn eða annan hátt, eða jafnvel nema aftur úr gildi.

Hvað snertir brýr þær, sem nú standa í fjárlagafrv., en samkvæmt frv. þessu ganga út, tel jeg gefið, að þær, samkvæmt því, sem stendur í 1. gr. frv., 2. málsgr., verði látnar ganga fyrir. Stjórn og vegamálastjóri geta ekki verið sjálfum sjer svo ósamþykk, að þau telji ekki sjálfsagt, að þær brýr hafi forgangsrjett eftir þessu frv., sem þau hafa tekið sjálf upp í fjárlagafrv.

Hvað snertir landssjóðinn, er mismunurinn eingöngu sá, að eins og nú er, tekur hann lánið í óákveðnu augnamiði, að eins til að jafna halla, sem á fjárlögunum verða, meðal annars vegna brúarbygginga, sem kæmu þar inn, en eftir frv. í ákveðnum tilgangi, þeim ákveðna tilgangi, að verja láninu til brúagerða.