22.08.1919
Efri deild: 37. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1761 í B-deild Alþingistíðinda. (1588)

113. mál, brúargerðir

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Af því að þetta mál snertir sjerstaklega atvinnumáladeild stjórnarinnar, vil jeg ekki láta hjá líða að lýsa samúð minni með frv. Samt sem áður virðist mjer sjálfsagt, að þær brýr, sem taldar eru í fjárlögunum, gangi fyrir öðrum, og jeg tel víst, að hver svo sem það verður, sem veitir málum þessum forstöðu, þá telji hann sig beinlínis bundinn við framkvæmd þess, sem fjárlagafrv. fór fram á í þessum efnum.

Jeg vona fastlega, að málið verði samþykt nú í þessari hv. deild, því þá væri lokið ferð þess um þingið. Engin ástæða virðist heldur vera til þess að aftra framgangi málsins, þó hjer sje um að ræða nýja stefnu, meðan ekki hefir verið sýnt fram á það, að þessi nýja stefna sje verri en sú gamla. Og einhvern tíma verður auðvitað að byrja á breytingunni, eigi hún á annað borð nokkurn tíma að komast í framkvæmd.

Og þessi breyting á að komast í framkvæmd, hvað svo sem háttv. þm. Ísaf. (M. T.) segir um arðsemi hennar eða arðleysi. En í þessu sambandi vil jeg beina þeirri spurningu til hv. þm. (M. T.), hvað hann telur eiginlega arðsamt, ef það er ekki arðsamt að ryðja úr vegi verstu hömlunum og höftunum á samgöngum og samskiftum manna á milli. (M. T.: Það er búið að því). Nei, því miður er ekki búið að því og ef menn væru spurðir að því, á hverju þeir teldu mesta þörf á samgöngumálum sveitanna, er jeg sannfærður um, að 99 af 100 mundu biðja um það, að brúaðar yrðu árnar, sem mestum tálmunum og hættu valda.

Jeg vil nú enn þá einu sinni láta í ljós þá ósk mína, að deildin dragi málið hvorki nje felli, því auðvelt er að bæta við fleiri ám seinna, ef þurfa þykir, eða stjaka við stjórninni, ef hún þykir treg til framkvæmda.