09.08.1919
Neðri deild: 29. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1763 í B-deild Alþingistíðinda. (1594)

111. mál, greiðsla af ríkisfé til konungs og konungsættar

Pjetur Ottesen:

Eins og kunnugt er, þá er eftir sambandslögunum lagt í vald Alþingis að kveða á um fjárframlag til konungs og konungsættarinnar og upphæð þess. En stjórninni þóknaðist nú að taka í sínar hendur þetta hlutverk þingsins, og ákveður í fjárlagafrv. sínu borðfje konungs 50,000 kr. á ári; hefir henni þó sjálfsagt þótt þetta nægileg og hæfileg upphæð. En nú hefir fjárveitinganefnd borið fram frv. þetta um greiðslu af ríkisfje til konungs og konungsættar, og vill hún færa fjárframlag þetta upp í 60,000 kr. Í ástæðunum fyrir frv. er þess getið, að það sje borið fram eftir ósk stjórnarinnar. Jeg fæ ekki sjeð eða gert mjer í hugarlund, hvaða ástæða geti verið fyrir þessum sinnaskiftum stjórnarinnar. Jeg fæ ekki betur sjeð en að sú upphæð, sem stjórnin tók til upphaflega, sje sæmileg, þar sem við, með því að leggja fram 50,000, legðum hlutfallslega meira til en Danir, sje borin saman fólksfjöldi ríkjanna, hvað þá ef farið væri eftir ríkidæmi landanna. Ef miðað er við fólkstölu, mundum við eiga að leggja til um 30.000 kr., en sje miðað við ríkistekjurnar, þá yrði það 12–15000 kr. Af þessum ástæðum hefi jeg leyft mjer að koma með brtt. á þgskj. 311, sem fer fram á, að fjárveitingin sje færð niður í þá upphæð, sem stjórnin tók upphaflega til.