09.08.1919
Neðri deild: 29. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1764 í B-deild Alþingistíðinda. (1595)

111. mál, greiðsla af ríkisfé til konungs og konungsættar

Frsm. (Bjarni Jónsson):

Jeg mun ekki halda langa ræðu að þessu sinni, því að jeg tel heppilegast, að sem minst sje um málið rætt hjer í þinginu. Jeg skal að eins geta þess, að stjórnin mæltist til þess við fjárveitinganefnd að bera fram frv., og nefndi til fjárupphæð þá, sem í frv. stendur. Taldi nefndin þessi tilmæli hafa við góð rök að styðjast, þegar þess er gætt, að ýms tilkostnaður konungs hefir hækkað eigi síður en annara manna nú á þessum dýrtíðartímum. Það á ekki við, að vjer Íslendingar förum hjer í neinn samanburð við Dani; alt er í sjálfsvald lagt, hve mikið vjer viljum greiða, og sómir oss eigi annað en að vort tillag sje eigi skorið við neglur, án þess þó að út í öfgar sje farið. Mundi jeg helst vilja mælast til þess við hv flutningsmann (P. O.), að hann tæki brtt. sína aftur.