22.09.1919
Efri deild: 62. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 483 í B-deild Alþingistíðinda. (162)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Magnús Torfason:

Jeg skal reyna að taka saman, að svo miklu leyti jeg get, andmæli þau, sem komið hafa gegn till. minni, og svara þeim.

Í fyrsta lagi á sendiherrann í Danmörku að vera auglýsing á fullveldi voru. Jeg lít svo á, að við þurfum ekki að gera það með neinu prjáli, og slíkt mundi ekki stoða okkur. Jeg man í fyrra, að þegar fjálgleikinn var mestur yfir sambandslögunum, þá átti að fara að krýna konung vorn í dómkirkjunni í Reykjavík og kaupa kórónu fyrir miljón króna, til þess að sýna fullveldi vort. Veit, að líka átti að fara að skapa tignarmerki fyrir landið, til að sýna fullveldi þjóðarinnar. Slíkt prjál er verra en ekki, og eykur síst veg vorn og virðingu. Fullveldi vort er og þegar auglýst. Konungur vor hefir gert það svo eftirminnilega, að það verður ekki betur gert, og frændur vorir, Norðmenn og Svíar, hafa viðurkent það, og munu ábyggilega gera sitt til að auglýsa það betur ef þess þyrfti með.

Annað, sem við eigum að vinna með þessari sendiherratign, er það, að slá því föstu, að við eigum sendiherrarjett, og auglýsa hann. En svo er nú komið málum okkar, að við þurfum alls ekki að slá þessum rjetti okkar föstum gagnvart Dönum; því í stjórnarfrv. var orðið sendiherra notað og var það þannig lagt fram í ríkisráðinu, og lagði konungur þar samþykki á það fyrir sitt leyti. Á sama hátt var það lagt fyrir lögjöfnunarnefnd, og hafa, mjer vitanlega, engin mótmæli komið fram gegn því þar. Og hvað sjálfum okkur viðvíkur þá erum við í engum vafa um það, að við eigum þennan rjett.

En þá kem jeg að þeirri ástæðu, sem er veigamest, og hún er sú, að þó við höldum þessari tign á sendimanni okkar í Danmörku, nær það alls ekki tilgangi sínum. Ef við eigum að auglýsa sendiherrarjett okkar, verðum við að senda sendiherra til allra annara ríkja en Danmerkur, t. d. til Montenegro, og er jeg viss um að eftir því myndi verða tekið og það ekki gleymast í sögu „diplomatisins“.

Erindreki okkar í Danmörku verður ekki einfaldur, heldur tvöfaldur — tvíeinn — (Fjármálaráðh.: Tvíeinn?) Já! tvíeinn. — Hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) hefir ef til vill einhvern tíma heyrt nefnt orðið þríeinn. — Hann verður tvíeinn, eins og konungur Íslendinga og Dana er tvíeinn.

Vegna þess, að við höfum sama konung og Danir, verður aðstaða erindreka okkar tvöföld. Hann verður trúnaðarmaður stjórnarinnar gagnvart Íslandskonungi og þess vegna er ómögulegt að skoða hann sem sendiherra. Þá verður hann og hins vegar málsvari okkar gagnvart dönsku stjórninni og útlendum sendimönnum. Af þessum ástæðum verður stöðu hans alt öðruvísi háttað en stöðu annara sendiherra.

Jeg játa, að jeg er enginn sjerfræðingnr í diplomatiskum fræðum — hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) er mjer að sjálfsögðu miklu vitrari í þeim greinum — en jeg veit ekki til, að nokkur þjóð hafi sendiherra hjá sínum eigin konungi.

Á meðan Noregur og Svíþjóð voru í bandalagi hafði Noregur ekki sendiherra í Svíþjóð, heldur svo kallað ríkisráð (Statsraad). Ekki hafði heldur Ungverjaland sendiherra hjá Austurríkiskeisara í Wien.

Þess vegna álít jeg best og rjettast, að staða erindrekans — ef nota má gamla nafnið án þess það valdi hneyksli — sje óákveðin, og sje jeg þá ekkert á móti því, að tekið sje upp nafn það, sem ríkin nú eru að gefa sendimönnum sínum og hann kallaður ríkisfulltrúi.

Titillinn gerir ekkert. — Jeg get minst á einn mann, sem hvert mannsbarn þekkir, og komst allra sinna ferða, þótt hann hefði engan titil, Benjamín Franklín. Hann var umboðsmaður ameríkönsku nýlendnanna og hafði að eins einfalt umboð þeirra, og dvaldi þó við hirð Loðvíks XVI. Frakkakonungs, en þá var tildrið mest.

Við vitum allir, hvernig honum tókst að reka erindi sitt, og mundum himinglaðir, ef okkar manni tækist jafnvel.

Mjer þykir meira en merkilegt, að ekki skuli hafa verið drepið á þessa tvöföldu aðstöðu, og á bágt með að trúa, að það sje af eintómri gleymsku.

Hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) var að jafna okkur til Englendinga. — Hann hefir brugðið mjer um barnaskap, og vel má vera, að jeg sje snoðinn, en þetta held jeg að sje ekki öllu minni barnaskapur.

Með þessu þykist jeg hafa svarað andmælum hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) og hæstv. forsætisráðh. (J. M.) Það, sem gerði það að verkum, að jeg er ekki alveg viss um að hæstv. forsætisráðh. (J. M.) sje svo fastur í rásinni, eru ummæli hans um það, að ef okkur reynist ofbyrði að hafa sendiherra, gætum við dregið saman seglin. En jeg er þeirrar skoðunar, að skemtilegra sje að fara smátt af stað, og færa sig svo heldur upp á skaftið.

Jeg held, að best sje fyrir okkur, að brjóta bág við allar gamlar stjórnarvenjur, sem eru nú að leggjast niður og sleppa öllu titlatogi. — Sendimaðurinn okkar hefir alveg sjerstaka aðstöðu. — Haldi hann trausti okkar og hylli konungs, hefir hann betri aðstöðu en sendiherra nokkurs annars ríkis, og þá er okkar hag fyllilega borgið.

Svo er líka eitt í þessu máli, sem ekki má ganga fram hjá. — Jeg óska ekki, að þessi fulltrúi okkar verði svo hár í lofti, að Íslendingar hafi ekki einurð á að snúa sjer til hans. — Okkur mun hollast, og þjóðin á að krefjast, að hann hjálpi okkur á öllum sviðum.

Hæstv. fjármálaráðh. (S E.) sagði, að með þessu værum við að sleppa tökum á utanríkismálunum. — En þessi ummæli hafa ekki við nein rök að styðjast því titillinn þokar engu um. — Hann bætir ekki hársbreidd við þennan fulltrúa okkar.

Loks vil jeg minna hv. deild á það, að hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) hefir látið ósvarað spurningunni um það, hvort nokkurt ríki á borð við okkur hafi haft slíkan sendiherra.

Hv. þm. Vestm. (K. E.) er svarað með þessu, en þann hv. þm. vil jeg láta vita það, að mál þetta kemur ekkert við afstöðu minni til utanríkismálanna í sambandslagadeilunni.

Jeg þykist hafa sýnt það, að jeg vil engu síður en hann, hæstv. fjármálaráðh. (S. E.), og aðrir fullveldismenn, halda fullum rjetti okkar, og þykist ekki hafa verðskulað nokkrar getsakir með framkomu minni.

Svo var að skilja á orðum hv. þm Vestm. (K. E.), að það væru ekki aðrir en hátignir menn, sem gætu veitt mönnum áheyrn eða fengið áheyrn sendiherra annara ríkja. En hv. þm. verður að gæta þess, að ástandið er orðið breytt í heiminum, og eigum við breyttu ástandi hvað mest að þakka, hvernig komið er fullveldismálum okkar.

Svo vil jeg minna á það, að þegar fulltrúar annara þjóða vildu koma einhverju fram í Danmörku, sneru þeir sjer til formanns fjárveitinganefndar, og hafði hann þó engan titil, en var óbreyttur borgari eins og við. Þetta sýnir, að það eru ekki titlarnir, sem hafa mest að segja. Manngildið er og verður drýgst á metaskálunum.