22.09.1919
Efri deild: 62. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 490 í B-deild Alþingistíðinda. (164)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Halldór Steinsson:

Jeg hefi komið fram með 2 brtt. Aðra þeirra hefi jeg flutt ásamt hv. 1. landsk. varaþm. (S.F.). þess efnis, að styrkurinn dr. Helga Pjeturssonar verði hækkaður upp í 4000 þús. kr. hvort árið, í stað 4000 kr. fyrra árið, en 2500 síðara. eins og hv. fjárveitinganefnd hefir lagt til. Um þessa brtt. vísa jeg til þess. er jeg sagði um þennan lið við 2. umr. — Að eins skal jeg geta þess, að hv. meðflutningsmaður minn (S. F.) vildi hafa styrkinn nokkru hærri fyrra árið. með tilliti til þess, að maður þessi er nú að leita sjer lækninga, en jeg get alls ekki fallist á það, að skoða styrk þennan, sem sjúkrastyrk, en álít, að honum sje varið til vísindalegra þarfa. — Með þessu er einnig komið á samræmi milli þessa styrks og styrksins til dr. Helga Jónssonar. Hafa þeir oft verið jafnir áður, og sje jeg ekki annað en sanngjarnt sje, að þeir sjeu það einnig í þetta sinn.

Hin brtt. er við 14. gr., og þar farið fram á, að aðstoðarlækninum á Ísafirði sjeu veitt 4000 kr. laun á ári, í stað 2000, eins og nefndin hefir lagt til.

Þegar launalagafrv. var síðast til umr. hjer í deildinni, kom brtt. frá hv. þm. Ak. (M. K.) um að fella aðstoðarlækninn á Ísafirði burt úr frv.

Launamálanefnd gekk í heild sinni inn á brtt. þessa, með því skilyrði, að viðkomandi manni yrði veittur svipaður styrkur í fjárlögunum, svo hann misti lítils eða einskis í við að vera tekinn út úr launafrv. Þetta var skýrt tekið fram, bæði af flm. brtt. og frsm. launanefndar.

Hefði því mátt búast við, að hv. fjárveitinganefnd hefði tekið tillit til þessara yfirlýsinga, en það hefir hún alls ekki gert, þar sem hún leggur til, að manni þessum verði að eins veittar 2000 kr. á ári í viðbót við þær 800 kr. er hann hafði áður. En það er 3600 kr. minna á ári en hann hefði haft, ef hann hefði staðið í launalögunum, svo sem upphaflega var.

Samkvæmt launalögunum átti hann að hafa 2500 kr. í byrjunarlaun, er færu hækkandi upp í 3500 kr., og þar sem hann hefir nú þegar þjónað embætti þessu í 12 á, hefði hann haft 3200 kr., og ef dýrtíðaruppbót er reiknuð 100%, hefðu laun hans orðið 6400 kr.

En það er ekki nóg með það, að honum hafi verið varpað burt ef launalögunum heldur útiloka launlögin, að hann fái dýrtíðaruppbót af þeim 800 kr. styrk, sem hann hafði.

Er hróplegt ranglæti að taka svona einn mann út úr heilli stjett og borga honum miklu minni laun en öllum öðrum stjettarbræðrum hans.

Í þessu sambandi tjáir ekkert að koma fram með það, að þessi starfi sje óþarfur, því meðan hann er ekki lagður niður hvílir sú skylda á ríkinu að sjá manni þeim, er hefir hann á hendi, fyrir tiltölulega svipuðum launum og öðrum sem slíkt starf hafa á hendi.

Hv. frsm. (E. P) var að minnast á það, að læknir þessi gæti sótt í önnur hjeruð. Það getur hann, ef hann vill. — En jeg tel ósamboðið þinginu að ætla að neyða hann til þess, með því að setja hann á sultarlaun. Auk þess er mjer kunnugt um, að heilsu hans er þannig varið, að hann myndi ekki þola að vera í erfiðu læknishjeraði.

Loks má geta þess, að hann væri sjálfsagt fyrir löngu farinn frá þessu starfi, ef hann hefði ekki gert sjer von um, og það ekki að ástæðulausu, að fá veitingu fyrir hjeraðslæknisembættinu þar, þegar það losnaði síðast. — En við höfum nú sjeð, hvernig sú von hefir ræst.

Jeg hefi ekki sjeð mjer fært að fara lengra en að manni þessum verði veittar 4000 kr. á ári, vegna undirtekta hv. fjárveitinganefndar, en af því leiðir, að þrátt fyrir þessa hækkun tapar hann 1600 kr. á ári, á því, að vera ekki tekinn upp í launalögin.

Jeg get ekki skilið það, að deildin, eftir alt þetta launaþvarg, geti verið þekt fyrir það, að níðast á einum einasta manni úr embættismannastjett landsins.

Jeg hefi þannig sýnt, að frásögn hv. frsm. (E. P.) er bæði röng og villandi, og hefði jeg síst ætlað honum að geta gert upp svo rangan reikning.