19.08.1919
Neðri deild: 39. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1775 í B-deild Alþingistíðinda. (1648)

126. mál, löggiltar reglugerðir um eyðing refa o. fl.

Frsm. (Pjetur Þórðarson):

Það er landbúnaðarnefndin, sem ber frv. þetta fram, og í greinargerðinni á þgskj. 354 er í raun og veru sagt alt, er segja þarf frv. til meðmæla. En þó skal jeg nú ekki brjóta alveg í bág við þá venjulegu reglu hjer í deildinni, að endurtaka nokkur atriði úr greinargerðinni. En greinargerðin svarar nánast til nefndarálits venjulegs.

Það er þá fyrst, að lög frá 22. mars 1890, um löggiltar reglugerðir sýslunefnda, eru orðin svo úrelt, að þar er til dæmis vitnað í tilskipun, sem nú er fyrir nálega 14 árum úr gildi gengin. Er því nauðsyn á að endurnýja ákvæði þeirra. Aðalefni þessara laga er, eins og hv. þm. er kunnugt, að ákveða, hvernig fara eigi að því að löggilda reglugerðir sýslunefnda um fjallskil, eyðing refa o. fl., svo að þær verði sem gildandi lög. Og í þeim er ekki fleira tekið fram en það, að ákveða sektir, og það, hver borga eigi fyrir eyðing refa.

En með lögum nr. 36, 24. nóv. 1893, var numin úr gildi 3. gr. laganna frá 1890, um það, hvaðan kostnaður við eyðing refa skuli greiddur. En nefndinni finst rjettlátt, að þau ákvæði sjeu aftur tekin í gildi,

Aðalefni þessa frv. er því að fá lögin frá 1890 endurnýjuð. Þó hefir nefndin komið með eitt atriði, sem er bein efnisbreyting frá eldri lögum. En það er ákvæðið um, að skýrslur um eyðing refa og útlagðan kostnað skuli gerðar eftir fyrirmynd, er stjórnarráðið semur, og að þeim skýrslum sje safnað á einn stað, í Stjórnartíðindunum, eins og öðrum skýrslum um landshagi.

Frv. þetta er yfirleitt einfalt, óbrotið og meinlaust, og ætti ekki að vekja ágreining, svo að nefndin væntir þess, að deildin taki því vel. Og það þarf ekki að eyða miklum tíma þingsins í að ræða þetta mál. Jeg veit að sönnu, að einhverjir lögfræðingar í deildinni munu vilja líta eftir því, að ekki sje neinsstaðar skakt með farið. En fyrir þessu þarf lítið að hafa, og vænti jeg þess, að það komi ekki til, að hjer sje farið með neitt, sem ekki má við svo búið standa, eins og í frv. er.

Það gefur að skilja, að ekki er ástæða til að vísa frv. þessu til nefndar, þar sem það kemur frá nefnd og hefir verið rækilega athugað. Þess vegna óska jeg, að hv. deild leyfi frv. nú að ganga til 2. umr. og síðan áfram rjetta boðleið.

Sje jeg svo ekki ástæðu til að lengja umr. frekar að svo komnu.