22.09.1919
Efri deild: 62. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 494 í B-deild Alþingistíðinda. (167)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Sigurjón Friðjónsson:

Jeg hefi ekki tafið fjárlagafrv. með brtt. eða ræðuhöldum Jeg vil þó leyfa mjer að kveðja frv. með nokkrum orðum, um leið, og það fer úr hv. deild.

Jeg tók þá stefnu við aðra umræðu málsins, að fylgja yfirleitt tillögum hv. fjárveitinganefndar, og var allvel ánægður með þær, það sem þær náðu; en jeg er ekki eins ánægður með það, sem nefndin hefir ógert látið, en þurft hefði að gera. Jeg veit ekki betur en að ætlast sje til þess af löggjöfinni og almenningi, að í fjárlögunum sje fólgin sem glegst skýrsla um fjárhagsástandið, en eins og frv. fer nú úr deildinni, er ekki því að heilsa.

Hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) lýsti yfir því við 2. umr., að tekjuhallinn næmi, eða myndi nema, nálægt 2 milj. kr. Þetta skýtur nokkuð skökku við frv., því að þar er gert ráð fyrir ca. milj. kr. tekjuafgangi. Jeg verð samt að álíta, að hæstv. fjármálaráðherra (S- E.) hafi rjett fyrir sjer, og að hann hafi síst gert of mikið úr tekjuhallanum, enda mun hann hafa bygt á upplýsingum skrifstofustjóra fjármálaskrifstofunnar um þetta

Hækkun fastra launa embættismanna nemur samkv. nál. launamálanefndar nálægt 400,000 kr. á ári, og dýrtíðaruppbót þeirra ca. 1,068,000 kr., en dýrtíðaruppbótin nú nálægt 600,000 kr. Svo að þar er hækkun ca. 468,000 kr. Auk þess er dýrtíðaruppbót á eftirlaun samkv. 18. gr. fjárlaganna um 80 þús. kr. Samtals nemur þessi hækkun öll nálægt 950,000 kr. Hjer er þó ótalin launahækkun og uppbót barnakennara og fleira, svo að ekki mun of hátt áætlað, að þessir hækkunarpóstar einir nemi rúmlega 1 milj. kr. á ári. Ekki mun ofætlað að telja 1 milj. kr. til landvarnarskipsins, og svo er útgerð þess og útgjöld til brúa og húsagerða eftir frv. þeim, sem eru fyrir þinginu. Hér við bætist enn kostnaður við fasteignamat, nefnd í skattamálum, berklaveikisvörnum o. fl., og þó að búast megi við, að tekjurnar verði heldur meiri en áætlað er, nægir þetta til þess að sýna, að fjárhagurinn er alt annað en glæsilegur.

Jeg skal þá víkja að nokkrum brtt., sem fyrir liggja, og fyrst að sendiherranum. Jeg býst við því, að jeg greiði atkv. með till. háttv. þm. Ísaf. (M. T.), þótt jeg sje í rauninni samþykkur háttv. 2. þm. G.-K. (K. D.), að fella beri þennan lið alveg. Jeg lít svo á, að okkar utanríkismál sjeu aðallega fólgin í verslunarmálum, og að aðrir menn en ,,sendiherrar“ sjeu betur fallnir til þeirra starfa.

Jeg býst ekki við því, að jeg geti greitt atkv. með brtt. á þgskj. 940, þótt mig langi til, í fyrsta lagi skiftir þessi styrkur svo litlu, að hann dregur sama og ekki neitt til þess að bæta úr húsnæðisleysinu hjer í Reykjavík. Í öðru lagi er hjer farið inn á nýja braut, sem vont er að sjá hvert stefnir, að lítt athuguðu máli. Í þriðja lagi vil jeg benda á, að húsagerð verður yfirleitt að geta með leigunni borgað byggingarkostnaðinn, rentur og afborgun, og ef hús eru leigð, svo að nokkru nemi, svo að þau beri sig ekki, þá myndi það geta leitt til þess, að húsaleiga yfirleitt lækkaði meira en eðlilegt er og heppilegt. Afleiðingin gæti orðið sú, við húsagerð fremur minkaði en ykist og að ver væri farið en heima setið.

Þá skal jeg snúa mjer að þeirri einu brtt., sem mitt nafn er við, styrkaukanum til dr. Helga Pjeturss. Jeg hefi nú lítið um þá till. að segja um fram það, sem háttv. meðflm. minn (H. St.) hefir sagt, sem sje, að þessi maður hefir oftast verið settur til jafns við nafna sinn, Helga Jónsson, og engin ástæða hefir komið fram, sem rjettlæti það, að af honum sje dregið fremur öðrum. Jeg býst raunar við því, að sú ástæða vaki fyrir mönnum, að þessi maður sje ekki við fulla heilsu. En jeg veit ekki betur en að landinu sje talið skylt að sjá fyrir starfsmönnum sínum yfirleitt, þegar þeir missa heilsu, og sje ekki, að þessi maður þurfi að vera undanskilinn. Annars held jeg, að hann sje talinn veilli en hann er. Hann skrifar að mínu áliti einna fegurst mál, sem nú er ritað hjer á landi, og myndi hann tæplega gera það, ef hann væri svo heilsuveill, sem talið er.