21.08.1919
Neðri deild: 41. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1787 í B-deild Alþingistíðinda. (1670)

128. mál, ritsíma- og talsímakerfi Íslands

Þorsteinn Jónsson:

Það var ekki ætlun landssímastjórans að svifta efra hluta Vallahrepps símasambandi, þó að það yrði úr, að línan að Brekku í Fljótsdal yrði lögð af aðallínunni norðan megin við Fljótið, því þá var það ætlun hans, að sæsími yrði samt lagður yfir Fljótið, frá Ási í Vallanes. Samt vildi hann helst, að það yrði látið vera að fastákveða nokkuð um slíkt, en láta það í sitt vald. Fjelst nefndin á þetta.

En ef nú svo fer, sem komið hefir til mála, að aðallínan lægi um Vellina, upp Skriðdal og niður í Breiðdal, þá myndi Vallanes verða símastöð. Yrði þá, er fje fengist til, lagður sæsími yfir Fljótið, í Ás, og svo sími þaðan og upp í Brekku. Er þá komið aftur að því, sem vakti fyrir okkur flm. upphaflegu till., mjer og hv. samþm. mínum (J. J). En hvort sem línan í Brekku verður lögð norðan megin eða sunnan megin Lagarfljóts frá Egilsstöðum, þarf stöð að vera sett í efri hluta Vallahrepps, sem Skógamenn, Norðurvallamenn og Skriðdælingar eiga hægt með að ná til.