05.09.1919
Neðri deild: 56. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1791 í B-deild Alþingistíðinda. (1684)

128. mál, ritsíma- og talsímakerfi Íslands

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Eins og hæstv. forseti tók fram, hefir ekki komið neitt framhaldsnefndarálit um mál þetta. Hefir nefndinni ekki unnist tími til þess, enda mundi það ekki hafa mikla þýðingu.

Breytingarnar, sem frv. hefir tekið í hv. Ed., eru þær, að í fyrsta lagi er bætt inn í loftskeytasambandi til Hafnar við Hornvík, í öðru lagi er bætt við tveimur nýjum símalínum, annari frá Eyrarbakka til Þorlákshafnar og út í Selvog, en hinni frá Miðey til Hallgeirseyjar í Austur-Landeyjahreppi. Allar þessar breytingar eru gerðar í samráði við landssímastjórnina, og um breytinguna á loftskeytasambandinu skal jeg geta þess, að hv. þm. þess hjeraðs (S. St.) er henni samþykkur fyrir sitt leyti.

Jeg má því víst lýsa því yfir fyrir hönd allrar nefndarinnar, þótt hún hafi ekki borið sig saman um málið, að hún gangi inn á þessar breytingar, og legg jeg því til, að frv. verði samþ. eins og það nú liggur fyrir.