08.09.1919
Efri deild: 51. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1824 í B-deild Alþingistíðinda. (1756)

132. mál, laun háskólakennara

Frsm. (Kristinn Daníelsson):

Eins og háttv. þingdm. sjá, hefir nefndin orðið sammála um að leggja það til, að hv. deild samþykki frv. þetta, sem fer fram á það, að einn af docentunum við háskólann verði gerður að prófessor. Nú sem stendur eru tveir prófessorar við heimspekisdeild háskólans, kennararnir í heimspeki og í ísl. málfræði, en kennarinn í ísl. sagnfræði er eftir núgildandi lögum að eins docent. Breytingin er því fólgin í því, að þessi kennari verði gerður prófessor.

Nefndinni þykir einsætt, að sjerstök rækt sje lögð við íslensk fræði við háskóla landsins, og að stuðlað sje að því á allan hátt, að hæfustu og nýtustu menn veljist til þess að halda þeim vísindum uppi. Jeg skal minna á, að allir kennararnir í lögfræði eru prófessorar, en nefndinni virðist enn þá ríkari ástæða til þess, að kennarinn í íslenskum fræðum sje aðalkennari, prófessor, en í nokkurri annari lærdómsgrein. Við aðra háskóla má fá meiri og betri fræðslu í öðrum vísindagreinum en hjer er hægt að veita, en hjá oss ættu íslensk fræði að skipa öndvegi, og á því sviði ætti háskóli vor að taka öllum öðrum háskólum fram, svo að hjer væri hægt að fá betri og fullkomnari fræðslu í þeim en nokkursstaðar annarsstaðar.

Nefndin hefir einnig haft það í huga, að núverandi kennari í þessari grein er alls góðs maklegur, og á það fullkomlega skilið, að honum sje þessi sómi sýndur. Hann hefir ritað mikið þjóðinni til sóma og ánægju, og er þess vegna því fremur ástæða til, að háttv. deild samþykki frv.

Jeg skal svo ekki fjölyrða meira um málið, en leyfi mjer að mæla með því, að frv. verði samþykt.