31.07.1919
Neðri deild: 22. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1826 í B-deild Alþingistíðinda. (1766)

62. mál, skoðun á síld

Frsm. (Matthías Ólafsson.):

Jeg gat þess við 1. umr. þessa máls, að hv. sjávarútvegsnefnd mundi koma fram með breytingar við þetta frv., samkvæmt bendingum yfirmatsmannsins á Siglufirði. Hann er sá maður, sem er vanastur þessu starfi og má því vænta, að hann þekki best til um það. Enda hefir nefndin tekið flestar tillögur hans til greina. Og skal jeg nú minnast á, í hverju þær liggja. Þegar þetta frv. var samið, var álitið, að ekki þyrfti að lögbjóða skoðun á nýrri síld, þar eð hún yrði metin eftir á.

Yfirmatsmaðurinn á Siglufirði benti hins vegar á, að full ástæða væri til að meta alla nýja síld, enda þótt endurmatið væri ekki nema sjálfsagt. Og eins og má sjá, hefir nefndin tekið þetta til greina. Þegar borið er saman frv. og breytingar þessar sjá menn, að þær eru fremur smávægilegar. En hann hefir hins vegar talið þær vera til bóta. Þrátt fyrir það, þó nefndin hafi tekið flestar athugasemdir yfirmatsmannsins til greina, þá hefir hún komið fram með tillögur um fleiri breytingar.

Eftir frv., eins og það er úr garði gert er ekki gert ráð fyrir, að hægt sje að selja síld til útlanda, fyr en búið sje að fylla á tunnurnar. En hins vegar getur oft komið sjer vel fyrir útgerðarmenn að geta selt nýja síld, án þess hún hafi verið umsöltuð. Venjan er sú, að tunnurnar eru fyltar aftur, og þá skoðað í þær. En það gæti verið ástæða til að leyfa að selja áður en þær eru fyltar í seinna sinnið. Jeg vænti þess að nefndin taki þetta atriði til athugunar fyrir 3. umr. Jeg sje ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta. Nefndin ætlar sjer með þessu að fyrirbyggja, að ekki komi fyrir annað eins óhapp og í fyrra og því ætlar hún matsmönnum að hafa eftirlit með síldinni frá því fyrsta til hins síðasta.

Jeg sje, að einn hv. nefndarmaður þm. Borgf. (P. O.). hefir áskilið sjer óbundið atkvæði með tilliti til orðabreytingarinnar við 6. gr., sem þá kemur til að hljóða svo:

„Nú telur yfirmatsmaður, að síld hafi eigi verið hirt eins vel og skyldi, og skal hann þá, áður en hann skrifar undir vottorð með síldinni, opna og athuga svo margar tunnur, sem honum þykir hæfilegt, og getur jafnvel stöðvað útflutning, ef mikil brögð eru að vanhirðunni.“

Þetta hefir einn hv. nefndarmaður ekki getað fallist á, sökum síðara ákvæðis greinarinnar um greiðslu á kostnaðinum, ef um vanhirðu er að ræða. En jafnframt því sem nefndin vildi tryggja, að eftirlit með síldinni yrði örugt, vildi hún koma í veg fyrir, að skoðunin yrði þeim dýr, sem alt væri í röð og reglu hjá. Ef hins vegar síldin reyndist skemd, og skoðunin því ekki ástæðulaus. Þá ber auðvitað síldareiganda að greiða kostnaðinn.

Í 14. gr. frv. stendur: „Lög þessi öðlast þegar gildi“. En þar sem nú er liðið svo langt á þing, að lögin kæmu ekki að haldi í ár hvort sem er, leggur nefndin til, að þau komi ekki til framkvæmda fyr en næsta ár. Jeg held að menn hljóti að sannfærast um að talsverð bót sje að þessu frumvarpi, frá því sem nú er, og hv. deild leyfi því málinu fram að ganga. Nefndin mun taka til athugunar þær breytingar, sem hún hefir fengið og íhuga, hvort til mála komi að gefa undanþágu frá 1. gr. frv.