10.09.1919
Neðri deild: 60. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1836 í B-deild Alþingistíðinda. (1783)

62. mál, skoðun á síld

Frsm. (Matthías Ólafsson):

Jeg hefi ekki miklu við að bæta það, sem stendur í framhaldsnál. Frv. þetta hefir nú verið afgreitt frá Ed. með nokkrum breytingum, en það er síður en svo, að Nd. nefndin álíti þær til bóta, telur þær heldur til skemda.

Vil jeg þar sjerstaklega benda á þá breytingu, að fella það niður, að matsmenn skuli hafa eftirlit með því, hver tegund salts er notuð í síldina. Að vísu er það bót í máli, að síldin á að vera undir eftirliti matsmanna alt til þess, er hún er send út. En það er öllum vitanlegt, að salttegundir eru mjög misjafnar, og þarf því meira af annari en minna af hinni. Og það getur alls ekki talist hæfur matsmaður, sem ekki hefir vit á salti.

Háttv. Ed. færði þau rök fyrir þessari breytingu sinni, að útgerðarmenn ættu erfitt með að segja til þess í tíma, hvaða salt þeir myndu nota.

Það getur verið rjett, eins og nú standa sakir, en þegar ófriðarafleiðingunum ljettir af, tel jeg sjálfsagt, að þetta atriði verði tekið upp aftur.

En þrátt fyrir þessar breytingar vill nefndin ekki hætta á að flækja málinu meira milli deilda, og leggur því til, að frv. verði samþ. óbreytt.