22.08.1919
Neðri deild: 42. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1839 í B-deild Alþingistíðinda. (1790)

127. mál, friðun fugla og eggja

Sigurður Stefánsson:

Jeg er alveg samdóma háttv. flm. (Sv. Ó.) um, að full nauðsyn sje að friða örninn. Honum fækkar óðum, og er sjálfsagt að stemma stigu fyrir því. En eins og hv. flm. (Sv. Ó.) tók fram, þá álít jeg öðru máli að gegna um valinn. Jeg vil í sambandi við þetta taka það fram, að hann er slæmur gestur í varplöndum og lundaverum. Það er ekki hægt að taka lunda í háf ef valur er þar á veiðum. Lundinn er svo hræddur við valinn, að hann flýgur allur út á sjó og kemur ekki upp aftur fyr en valurinn er farinn. Jeg þekki þetta af eigin reynslu. En þetta væri ekki næg ástæða, ef valnum væri að fækka, en það eru engin merki þess. Jeg veit, að fyrir vestan er hann eins algengur og áður var, og jeg hefi átt tal við Norðlendinga um þetta efni, og hafa þeir sömu sögu að segja. Þetta kemur af því, að lítil stund hefir verið lögð á að eyða honum, og hann deyr ekki af sömu ástæðum og örninn. Örninn jetur hræ og deyr af eitrun, en valurinn jetur að eins lifandi fuglaket. Jeg ætlaði að koma með brtt., en hún er ekki komin frá prentsmiðjunni enn. Hún gæti þá komið til 3. umr., og er brtt. um það, að valurinn skuli halda áfram að vera í tölu ófriðaðra fugla.