23.08.1919
Neðri deild: 43. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1840 í B-deild Alþingistíðinda. (1794)

127. mál, friðun fugla og eggja

Flm. (Sveinn Ólafsson):

Jeg hefi ekki sjeð brtt. á þgskj. 466 fyr en nú, og get ekki áttað mig á því, hvernig hún fellur inn í frv. Jeg get hugsað mjer, að breyta verði 3. og ef til vill 4. gr. frv., ef brtt. verður samþykt. Hins vegar get jeg sagt, að mjer finst brtt. ekki skifta miklu máli. Ef svo er, sem flm. brtt. gat um í gær, að valurinn skemmi fuglavarp eða lundaveiði, þá verður sennilega líkt um það, úr því hann verður ekki skotinn, eins og háttv. þm. sagði, þótt hann verði friðaður. En jeg er hræddur um, að hann geri helst til mikið úr þessu. Því þótt valur geri endrum og eins óróa í varpi, þá er ekki gerandi orð á því, ef hann gerir ekki veruleg spjöll. Það er ekki gild ástæða til að ófriða valinn, úr því að ófriðunin hefir leitt til þess, að hann er sumsstaðar horfinn eða fágætur orðinn, svo sem er víða á Austurlandi, og það verður þó að muna, að meðan nokkur valur lifir eftir, mun hann við rán kendur og getur eigi án þess lifað.

Jeg verð þess vegna að mæla móti brtt., því að eftir henni liggur ekki annað fyrir en að valurinn verði gersamlega ófriðaður, en við það get jeg ekki felt mig.