25.09.1919
Neðri deild: 73. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 518 í B-deild Alþingistíðinda. (180)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Frsm. fjárhagsnefndar (Magnús Guðmundsson):

Það má segja, að fjárlögin hafi ekki farið til ónýtis upp í Ed., því að tekjubálkurinn hefir hækkað um 2 milj. En það verður ekki sagt, að deildin hafi með þessu fundið upp „púðrið“, því að hækkanirnar eru fólgnar í því, að færa upp allar tekjuáætlanir. Þessi deild og nefndin hjer hafa fylgt þeirri reglu, að áætla tekjurnar varlega, til þess að afgangur yrði til að koma á móti væntanlegum fjáraukalögum og umframgreiðslu. En þessa stefnu hefir Ed. brotið með því, að áætla tekjurnar eins hátt og freklega má við búast, að þær verði. Sumar hækkanirnar eru að vísu þann veg til komnar, að tekjuaukalög hafa verið samþ., eins og t. d. lög um húsaskatt og aukatekjur. En þó álít jeg fullríflegt að búast við 50 þús. kr. tekjuauka af þeirri breytingu, sem gerð hefir verið á 55. gr. aukatekjulaganna.

Áætlunum um dýrtíðar- og gróðaskatt er einnig teflt á fremsta hlunn. Það er gert ráð fyrir 100 þús. kr. En jeg efast um, að skatturinn nemi svo miklu. Ed. hefir farið eftir því, að skatturinn verður nú á annað hundrað þús. En tekjurnar verða ekki framvegis eins miklar eins og þær hafa verið undanfarin ár, því að gróði manna er minni, og einn af helstu gjaldendunum, sem greiddi 30–40 þús., er farinn af landi burt.

Erfðaskatturinn er ekki heldur varlega áætlaður. En jeg tók eftir í nál., að Ed gekk út frá því, að 1. ársfjórðunginn hefði hann numið 20 þús., og mun mörgum ganga það í augu. En þess ber að gæta, að skattur þessi var mestur úr einu ríku búi, sem fjell til eins ríks erfingja, og því nam hann svo miklu.

Útflutningsgjaldið er líka fullhátt áætlað 600 þús. Þar er bygt meira á síldarveiðunum en jeg tel varlegt. Er gert ráð fyrir 125 þús. tunnum. En það er ekki varlegt, að mínu áliti.

Sama er að segja um stimpilgjaldið Ekki fæ jeg sjeð, hvers vegna Ed. gerir mun á árunum. Ef hún býst við verðfalli, ætti hún að gera ráð fyrir því víðar.

Póstgjöld voru áætluð 190 þús. kr. eftir áætlun póstmeistara, og var sú áætlun bygð á sömu porto og var í vetur. Nú hafa ný lög verið samþykt, sem hafa fært burðargjald á brjefum úr 20 niður í 15 aura, en hækkað burðargjald undir böggla. Býst jeg við, að það hafi yfirleitt lækkandi áhrif.

Það er spurning, hvort Nd. á ekki að breyta þessari áætlun. En svarið við því er, að nefndin vill ekki eiga það á hættu, að þessi breyting verði feld í Ed. og frv. fari í sameinað þing vegna tekjubálksins. Nefndinni er kunnugt um, að þessi áætlun var samþ. í Ed. með öllum atkv. gegn einu.

Eins og jeg tók fram í byrjun, þá er það ekki meining mín, að tekjurnar verði ekki eins háar og hjer er gert ráð fyrir. En þá vantar fyrir fjáraukalögunum og umframgreiðslu. Frv. gefur ekki rjetta hugmynd um fjárhag landsins. Ef rjett ætti að vera, þyrfti að bæta 3 milj. kr. við gjaldmegin. Jeg áætla 1 milj. fyrir aukafjárlögin og 2 milj. í launabætur, og er það lágt.

Aukagjöld árið 1918–1919 eru rúmar 800 þús. kr. Til samræmis kemur nefndin með þá brtt. á tekjuáætlun, er leiðir af því, að samþ. var hækkun á vörutollinum, sem nemur 1/2 milj. á fjárhagstímabilinu. Ef þessi brtt. verður samþ., verður tekjuafgangurinn sem næst 900 þús., segjum 1 milj. En þá vantar 2 milj. til þess, að tekjurnar hrökkvi fyrir gjöldunum. Þetta kemur heim við það sem jeg sagði við framhald 1. umr. En þó skal jeg geta þess, að önnur miljónin af þessum tveim miljónum er afborgun af skuldum. Við verðum þess vegna 1 miljón fátækari í lok fjárhagstímabilsins heldur en við erum nú. En þó þarf ekki að fara saman tekjuhalli og tap ríkisins. Tekjuhalli er það, að tekjurnar nægja ekki. En þar með er ekki sagt, að því verði ekki varið til þess að borga skuldir eða lagt í arðvænleg fyrirtæki. 1 miljón er borguð samkvæmt 8. gr., og auk þess er lagt til Landsbankans, og er það ekki eyðslufje. Það, sem liggur fyrir næsta þingi, er að afla tekna, og stjórnarinnar verk, að sjá fyrir því.

Að lokum vil jeg minna á það, sem jeg drap á í upphafi, að fjárhagsnefnd þessarar deildar telur það illa farið, að vikið er frá þeirri gömlu og góðu reglu, að áætla tekjurnar varlega, til þess að þær mæti óvissum útgjöldum. En nefndin hefir ekki sjeð sjer fært að breyta þessu, vegna þeirrar ástæðu, að þá lægi fyrir frv. að fara í sameinað þing.

Annars verður ekkert sagt með vissu um fjárhagsútlitið. En þó að sum blöð sjeu að prjedika það, að enginn hafi botn í fjármálunum hjer á þingi, þá býst jeg samt við, að reynslan skeri úr því, að það sje nokkurn veginn rjett, sem hjer er gert ráð fyrir.