29.08.1919
Neðri deild: 49. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1847 í B-deild Alþingistíðinda. (1816)

134. mál, húsaskattur

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg hefi, ásamt háttv. þm. Borgf. (P. O.), leyft mjer að koma fram með brtt. á þgskj. 547, sem fer fram á það, að hækkunin nái ekki til þeirra húsa, sem virt hafa verið til brunabóta eftir 1. janúar 1916.

Eins og menn vita, hafa virðingargerðir, sem síðan hafa fram farið, orðið miklu hærri en áður var, sökum dýrtíðarinnar, og því hefir gjaldið hækkað um leið.

Þeir, sem keypt hafa hús síðan, hafa orðið að kaupa þau við mjög háu verði, og hafa þeir um leið orðið að láta virðingargerð fara fram.

Nú eru hjer í Reykjavík lög, sem takmarka að miklum mun not manna af húseignum sínum, svo að þeir munu tæpast geta fengið rentu af húsverðinu, sem þeir munu þó þurfa á að halda flestir.

Þess má líka geta, að þótt húsin hafi í orði kveðnu hækkað í verði, þá njóta margir ekki aukinna tekna af þeim fyrir það, t. d. þeir, sem hafa smáhýsi að eins yfir sjálfa sig. Hjá þeim er enginn tekjuauki að því, þótt húsin teljist meira verðmæti en áður.

Auðvitað má segja, að ef þeir ættu að leigja, þá yrðu þeir að borga meira en áður. En þess ber að gæta, að þar sem virðingargerðin hefir tvöfaldast, þá mundi gjaldið af þeim húsum ferfaldast ef þetta verður samþykt. Annars verða leigjendurnir ætíð að borga þetta gjald.

Jeg vona því, að háttv. fjárhagsnefnd geti fallist á þennan fyrri lið till.

Síðari liðurinn er til vara, ef þetta yrði ekki samþykt. Hann fer fram á að lækka gjaldið úr 3 kr. niður í 2 kr.

En jeg lít svo á, sem fyrri liður brtt. sje bæði sanngjarnari og rjettlátari þótt hinn sje til nokkurra bóta á frv., eins og það nú liggur fyrir.