29.08.1919
Neðri deild: 49. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1848 í B-deild Alþingistíðinda. (1817)

134. mál, húsaskattur

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Jeg skal játa, að það liggur nokkur sanngirni á bak við þessa aðaltill. háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) og háttv. þm. Borgf. (P. O.), því það er ekki hægt að neita því, að það er hlutfallslega vegna verðhækkunarinnar talsverður munur á virðingarverði húsa, sem virt eru eftir áramótin 1916, og þeirra, sem áður hafa verið virt.

En jeg fæ ekki betur sjeð en að það valdi allmiklum glundroða að koma þessu ákvæði í framkvæmd. Svo er það og annað, sem jeg felli mig ekki við, og það er, hvers vegna þetta ákvæði á ekki líka að ná til annara húsa en íbúðarhúsa. En aðalástæðan á móti þessari brtt. er sú, hversu erfitt mun vera að framkvæma hana, því það er svo ruglingslegt að fara að reikna skattinn á húsunum eftir tvennskonar reglum.

Þessi brtt. hefir ekki verið borin undir fjárhagsnefnd, og hefir hún því í heild ekki tekið afstöðu til hennar, og ráða því nefndarmenn algerlega atkv. sínu. Jeg fyrir mitt leyti get lýst því yfir, að jeg mun greiða atkv. á móti henni.

Um varatill. vil jeg geta þess að jeg vil heldur, að frv. verði algerlega felt, heldur en að hún verði samþykt.

Hv. flm. (J. B.) sagði, að húsin hefðu mörg verið keypt háu verði, en það er engin ástæða á móti þessu frv., því það sýnir að eins, að húsin hafa hækkað í verði. Þá nefndi hann og húsaleigulögin og vildi færa það fram móti þessum skatti, að húsaleigunefnd ákvæði altaf um leigu manna og sæi um, að hún yrði ekki of há; væru því húsaeigendur varla ráðandi eigna sinni og biðu oft mikinn halla af slíku. Jeg veit ekki betur en að húsaleigunefndin reyni að gæta allrar sanngirni í afskiftum sínum af húsaleigu og ákveði hana oftast nær eftir kaupverði húsanna. Þá talaði háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) um, að í sjálfu sjer hefðu þeir ekkert grætt af verðhækkun húsanna, sem byggju sjálfir í þeim og leigðu ekkert út, en hann hrakti þessa mótbáru sjálfur, um leið og hann hafði lýst henni, með því að segja, að þessir menn hefðu orðið að leigja dýrara, ef þeir hefðu ekki átt húsin.

Annars tel jeg það ilt verk að vera að berjast á móti þessum litlu tekjuaukafrv., sem liggja fyrir þessu þingi; þótt þau hossi ekki hátt, hvert út af fyrir sig, þá munar þó talsvert um þau er þau koma saman, ef þau verða öll samþykt. Veitir heldur ekki af að fá eitthvað til þess að vega á móti þessum miljóna tekjuhalla, sem í vændum er.