29.08.1919
Neðri deild: 49. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1849 í B-deild Alþingistíðinda. (1818)

134. mál, húsaskattur

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg sje ekki betur en að brtt. okkar hv. þm Borgf. (P. O.) sjeu einkar sanngjarnar, enda viðurkendi hv. frsm. (M. G.) það. Að við í brtt. tökum engin hús undan nema þau, sem búið er í, kemur af því, að á verslunarhúsum hvíla engar hömlur, svo sem húsaleigulög, en eins og jeg gat um áðan takmarka þau nokkuð afnotarjett manna af húsum. Jeg veit til þess, að þegar menn hafa keypt hús háu verði, hefir húsaleigunefnd ákveðið leiguna, auðvitað eftir bestu vitund, en svo hefir oft þurft að gera mikið við húsin, þar sem verið hafa á þeim ýmsir ágallar, sem kaupendurnir hafa ekkert um vitað fyr en keypt var, og sá kostnaður fæst þá ekki upp borinn með leigunni. Viðvíkjandi því, að þeir, sem ættu hús, er að eins, væru fyrir fjölskylduna, hefðu tekjur af þeim, þá viðurkendi jeg, að þeir hefðu af þeim óbeinan hag. En þrátt fyrir það sje jeg ekki ástæðu til að vera að íþyngja þeim með þessu gjaldi. Ef þessir menn ætluðu sjer að selja húsin og græða á þeim, þá ættu þeir það á hættu að fá hvergi húsnæði og yrðu því að flytja út á götuna. Það verður því ekki sagt, að fyrir slíka menn sje það beinlínis gróði, þó húsin hafi hækkað. Jeg tók það fram þegar í byrjun, er jeg hóf andmæli á móti þessu frv., að mjer þætti miður að þurfa að leggjast á móti því, þar eð það væri tekjuaukafrv. En þess ber þá líka að gæta, að það er enginn stórvægilegur tekjuauki af þessu frv., en getur verið alltilfinnanlegt þeim, er lítil efni eiga.