29.08.1919
Neðri deild: 49. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1850 í B-deild Alþingistíðinda. (1819)

134. mál, húsaskattur

Einar Arnórsson:

Eins og kunnugt er, hefir húsaverð hækkað allmikið síðan styrjöldin hófst, en þess ber líka að gæta, að virðingarverð hefir hækkað að líku skapi, saman borið við það, sem var fyrir stríðið. En um leið og virðingarverð hefir hækkað, þá hafa líka hækkað skattar á húsunum að sama skapi, t. d. eins og brunabótagjaldið. Það er því dálítið undarlegur hugsunargangur í greinargerðinni fyrir þessu frv., þar sem verið er að tala um, að verðlag peninganna hafi lækkað, og því sje rjett að leggja þennan skatt á. Það er að vísu rjett, að verð peninganna hefir lækkað, en um leið er afleiðingin sú, að skattar hafa líka hækkað, og verður því þessi ástæða harla veigalítil.

Jeg verð að taka undir með hv. 1. þm. Reykv. (Þ. B.), að mjer finst till. hans fullkomlega rjettmæt. Að því er til Reykjavíkur kemur eru ýmsar hömlur á því, hvernig menn fara með hús sín, og sömuleiðis ber að taka tillit til þess, að viðhaldskostnaður húsanna eykst að sama skapi sem dýrtíðin. Að minsta kosti er varatill. þeirra 1. þm. Reykv. (J. B.) og þm. Borgf. (P. O.) svo sanngjörn, að ekki er ráðlegt að fella hana. Það er ekki nema sjálfsagt, að þessi skattur nái ekki til húsa, sem virt hafa verið upp eftir 1. jan. 1916, og er það af því að virðingin hefir hækkað svo mikið, og þar af leiðandi gjöldin. En vegna hvers hefir nú virðingin hækkað? Það er ekki af neinu öðru en því, að ef húsin brynnu. Þá kostaði meira að koma þeim upp en sama virðingin gerði ráð fyrir. Það má segja, að þetta sje nokkurskonar „malum necessarium“, eða með öðrum orðum, að það verður nokkurskonar nauðsynlegt böl, sem ekki verður hjá komist, að láta virða húsin upp aftur.

Tekjuauki þessa frv. er þá heldur ekki svo stórfeldur, að landssjóð skifti hann miklu máli. Enda rýrna tekjurnar lítið þó að breytingartill. á þgskj. 547 verði samþyktar, því að frv. nær samt óskorað til allra húsa, sem ekki hafa verið virt eftir 1. jan. 1916 og til allra húsa, sem ekki eru notuð til íbúðar.