04.09.1919
Efri deild: 48. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1862 í B-deild Alþingistíðinda. (1836)

134. mál, húsaskattur

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Hv. þm. Ísaf. (M. T.) bar húsaskattinn saman við eignaskattinn. En húsaskatturinn þolir vel þennan samanburð, þó hækkaður verði. Hundraðsgjaldið verður samt lægra, og hefir staðið í stað, þó greitt sje af virðingarverði, sem er venjulega langt fyrir neðan sannvirði. T. d. er nýbúið að selja hús hjer í bænum á 63 þús. kr., sem virt er til brunabóta á tæp 12 þús. En eignaskatturinn fer hækkandi upp í 15%. Það er því öfugmæli, að mönnum sje „hegnt“ fyrir að eiga hús, eins og komist hefir verið að orði. Það getur ekki heitið hegning, að menn greiði minni skatt af eignum sínum, ef þeir leggja þær í húsabyggingar, heldur en þeir legðu þær í eitthvað annað.

Jeg skal játa, að jeg man ekki til, að hv. þm. Ísaf. (M. T.) hafi verið ánægður með nokkurn tekjuauka, sem afgreiddur hefir verið á þessu þingi eða komið fram, nema þetta lítilræði, sem hann vildi leggja á landbúnaðarafurðir, og samþ. var hjer í hv. deild. Og annað til, sem ekki má gleyma, þótt sá tekjuauki renni ekki í ríkissjóð. Hann var eindreginn fylgismaður hækkunarinnar á hundaskattinum Þar var hann öflugur stuðningsmaður brtt. hv. 4. landsk. þm. (G. G.). Hann hefir haldið því fram, að fjárhagurinn sje svo glæsilegur, að meiri skatta þurfi ekki með. En nú virðist heldur einhver bilbugur á honum í því efni. Enda er það sannast, að þingið mun ekki í þetta skifti leggja svo mikla skatta á þjóðina, að það verði ekki nóg við þá að gera, því miður. Þess vegna er varhugavert að fella frv. það, sem nú liggur fyrir, enda er sú skattshækkun í fullkomnu samræmi við hækkanir á öðrum sköttum.