25.09.1919
Neðri deild: 73. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 523 í B-deild Alþingistíðinda. (184)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg vildi taka það fram, að jeg hefi lýst því yfir, að ef svo færi, að jeg yrði í stjórninni áfram, sem jeg veit ekkert um enn þá, þá mundi jeg telja mjer skylt að koma fram með svo mikil tekjuaukafrv., að það yrði ekki neinn verulegur halli á fjárlögunum fjárhagstímabilið 1922. — Eins og háttv. þm. vita, þá er þetta mjer áhugamál, enda lýsti jeg því yfir þegar í þingbyrjun.

Um verðlaunauppástungu hv. 1. þm. N.-M. (J. J.) er það að segja, að jeg er ekki trúaður á, að hún bæri neinn árangur. Það hefir verið ritað talsvert mikið um þetta mál. En mjer vitanlega hefir engin tillaga komið fram, sem telja mætti sjálfsagða, og benti á einhverja nýja leið. Og það síst úr þeirri átt þaðan, sem árásirnar hafa verið mestar. Það er kunnugra en frá þurfi að segja, að það eru alstaðar miklar deilur um skattamál, um þær meginreglur, sem rjettast sje að fara eftir. Menn mega heldur ekki búast við, að þessar deilur mundu hætta, þó að skattalöggjöfin væri endurskoðuð. Þar er komið svo nálægt peningapyngju manna, að það verður altaf viðkvæmt mál. Enda er altaf hálfgerður reipdráttur um slík lög.

Það er síður en svo, að ástæða sje til að ámæla þessu þingi fyrir, hve lítið það hafi komið með af tekjuaukafrv. Miklu fremur ætti það hrós skilið fyrir það, sem það hefir afkastað á þessum erfiðu tímum. Og þegar verið er að segja, að menn viti ekki, hvernig fjárhagurinn standi, þá er það hin mesta meinloka, því honum hefir verið lýst af mjer í þingbyrjun í stórum glöggum dráttum. Og á þinginu þar á undan var einnig gefin glögg skýrsla um fjárhaginn.

Jeg vil endurtaka það, sem jeg sagði í upphafi ræðu minnar, að jeg lýsi því yfir, að verði jeg áfram í stjórninni, þá tel jeg það skyldu mína að koma fram með nægileg tekjuaukafrv. til að jafna upp hallann. Hins vegar er ekki að búast við, að endurskoðun skattalöggjafarinnar verði tilbúin fyrir næsta þing. Fyrir það verður væntanlega ekki hægt að leggja annað en bráðabirgðatillögur.