04.09.1919
Efri deild: 48. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1867 í B-deild Alþingistíðinda. (1840)

134. mál, húsaskattur

Magnús Torfason:

Jeg er satt að segja hissa á öllum þessum umræðum. Jeg hjelt mjer fast við efni frv. og fór ekki út í aðrar hugleiðingar. Jeg ljet mjer nægja að sýna, að til væri önnur hlið á málinu, en hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) hefir heiðurinn af að hafa leitt vissa skepnu inn í herbúðirnar. (S. E.: Hún var þar áður). Jeg skal taka fram, út af ræðu hv. frsm. (G. Ó.), að það er alveg rjett, sem hv. 4 landsk. þm. (G. G.) sagði, að tekjuskattur er af vöxtunum, en húsaskattur af höfuðstólnum. Þar með er sannað, að hv. frsm. (G. Ó.) hefir ekki haft hugmynd um, hvað hann var að tala, svo alt, sem hann hefir sagt, er þar með fallið um koll af sjálfu sjer.

Því hefir verið haldið fram, að jeg væri á móti sköttum. Jeg verð að lýsa yfir, að það eru hrein og bein ósannindi. Það er sagt, að fáir bæti meiru en helmingi við, en hæstv. ráðherrar báðir (S. E. og S. J.) og hv. frsm. (G. Ó.) eru í þeim flokkum.

Jeg var með því að hækka tolllagafrv., og sömuleiðis var jeg með bráðabirgðainnflutningsgjaldi á tunnum, en ekki á móti, eins og hæstv. atvinnumálaráðherra (S. J.) sagði. Jeg kom ekki fram með nokkra brtt. um að minka salttollinn, vildi að eins dreifa honum á fleiri ár. Þá er eftir útflutningsgjaldið, og er rjett, að jeg lagði til, að það yrði rjettlátara. En jeg man ekki betur en að þar væri töluvert jafnt á komið. Það hafðist í gegn með 8 atkv. gegn 6.

Það er nú komið fram, að það er meiningin að leggja þetta þriggja króna gjald til grundvallar, svo það verði framtíðarskattur, og það var einmitt þess vegna, sem jeg er á móti því. Annars skil jeg vel, að um leið og á að lækka gjaldið á landbúnaðinum um 1/3, á að tvöfalda það í kaupstöðunum.

Hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) talaði um verðhækkunartoll. Álasaði jeg honum ekki fyrir, að sá tollur er á kominn. Það hefði átt að leggja hann á þegar 1917, og þá var núverandi hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) ekki kominn í sessinn.

Jeg hefi tekið það fram áður, og jeg segi það enn, að jeg vil ekki láta leggja á tapið. Það verður að verja þá, sem altaf er lagst á. Mjer finst frekja að álasa þeim, sem reyna að sporna á móti, að altaf sje níðst á einum atvinnuvegi. Það lítur út fyrir, að við „þorpararnir“ eigum að vera eins og lömb til slátrunar leidd, er eigi megi á neinn hátt kvarta undan meðferðinni.

Hæstv. fjármálaráðherra (S. E.), hæstv. atvinnumálaráðherra (S. J.) og hv. frsm. (G. Ó.) hafa allir sagt, að jeg hafi barist fyrir „hundunum“. Jeg hefi ekki talað eitt orð um hundaskattsmálið, og engin till. komið frá mjer því viðvíkjandi, nema til lækkunar. ,,Hundapólitíkin“ er því öll þeirra megin.

Svo jeg segi eitt orð um málið sjálft, skal jeg geta þess, að álögur á húsum, t. d. hjer í Reykjavík, eru orðnar gífurlega miklar. Jeg veit til, að af sumum húsum nema gjöldin þúsundum. Jeg áleit mjer skylt að skýra frá minni skoðun á þessu máli, með fram af því, að mjer finst ófært að halda áfram á þeirri skattbraut, sem við nú erum á.