04.09.1919
Efri deild: 48. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1871 í B-deild Alþingistíðinda. (1843)

134. mál, húsaskattur

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg vil að eins gera örstutta athugasemd út af ummælum hv. þm. Ísaf. (M. T.) En jeg get tekið undir með embættisbróður mínum, að jeg fyrirgef honum þau miður sæmilegu orð, sem hann ljet falla í minn garð. (M. T.: Þau voru og eru sönn). Það er líka alveg rjett og alkunnugt, að hv. þm. Ísaf. (M. T.) hefir verið blendinn í tollmálunum, og þó að hann hafi ekki ætíð verið beinlínis á móti, þá er mjer persónulega kunnugt um, að í sál hans hefir ekki sjaldan staðið hörð barátta um það, hvort hann ætti að segja já eða nei. Svo var um tóbakið, svo var um saltið og svo er um bifreiðaskattinn. Þar skrifaði hann undir með fyrirvara. En menn eru nú farnir að þekkja það, hvað fyrirvari þýðir hjá þessum hv. þm.

Annars finst mjer óþarfi af þessum hv. þm. (M. T.) að reiðast af því, þó menn vilji finna honum eitthvað til málsbóta, eins og jeg t. d. seinast. Þó að jeg finni að því sem aflaga fer hjá honum, eins og skylda mín er, þá er sjálfsagt að hrósa því, sem vel er gert hjá þessum hv. þm. (M. T.).