10.09.1919
Efri deild: 53. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1874 í B-deild Alþingistíðinda. (1852)

134. mál, húsaskattur

Magnús Torfason:

Það urðu eftirminnilegar umræður um þetta frv. hjer síðast; þessar umræður um þetta skattaörverpi stjórnarinnar voru með öllu ástæðulausar frá minni hálfu; jeg hafði ekki bekst til við nokkurn mann, en hjelt mjer við efni málsins. Sá, sem á sökina á því, er hæstv. fjármálaráðherra (S. E.), og hann hjelt þar áfram sínum upptekna hætti, að vega að þm. dauðum. En sjerstaklega voru þessar umræður eftirminnilegar frá hálfu fjármálaráðh. (S. E.), því þær voru algert brot á þeirri þingvenju, er ráðherrar vorir hafa farið eftir hingað til. Við þm. höfum haft frið fyrir ráðherrum landsins, ef við höfum ekki bekst til við þá, en hjer hóf hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) persónuleg brigsl til mín og á þá stefnu, er jeg hefi fylgt í fjármálum, og vildi stimpla mig sem einhvern fjármáladjöful, og þá, sem annari stefnu fylgja, sem fjármálaengla, og hlýtur þá hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) sjálfur að vera erkiengillinn. Þá var það og nýtt að heyra borin fram hrein og bein ósannindi úr ráðherrastól. Jeg skal ekki segja um það, hvort það hefir verið viljandi eða óviljandi, því hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) er eitt af þjóðskáldum vorum.

Skal jeg nú færa orðum mínum stað.

Hann (S. E.) sagði, að jeg hefði verið á móti öllum tollum nema hundaskattinum.

Skal jeg nú rekja það mál nánar.

Tolllagafrv. hækkaði fjárhagsnefndin hjer, og átti jeg góðan þátt í því.

Að því er snertir útflutningsgjaldið, þá er hjer eitt satt, að jeg vildi lækka einn lið, en jeg bætti líka 9 liðum við, og sneið af frv. ýmsar hringavitleysur, sem í því voru hjá hv. Nd.

Hins vegar reyndi jeg ekkert til að lækka salttollinn og talaði ekki orð um síldartunnutollinn.

Þetta er þá afstaða mín til aðalskattafrv. sem fram hafa komið, og geta menn af þessu sjeð, hvað jeg hefi verið óleiðitamur í hækkununum. En fyrst hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) hefir álpast út á þessa braut, er ekki úr vegi að athuga lítillega framkomu sjálfs hans í þessum málum. Fyrst má þá minna á það, að ekki var honum mikið um „halann“, í öðru lagi vildi hann lækka suðusprittstollinn (Fjármálaráðherra skellihlær), og í þriðja lagi vildi hann draga úr tóbakstollinum. (Fjármálaráðherra: Jeg?). Já, með því að færa niður tollgjaldið af vindlagerðinni. Af þessu geta menn því sjeð, að sjálf hágöfgin hefir ekki verið gallhörð í öllum hækkununum.

Þá gerði hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) enn þá einu sinni mesti veður út af hundapólitíkinni. Þar átti jeg að hafa verið með hækkun, þvert ofan í sjálfan mig. Þessi skattur var 50 kr. þegar frv. kom frá Nd., en jeg kom með till., og bjó hana til sjálfur, um að hafa hann 10 kr. á sumum hundum. Þetta er því alveg öfugt við ráðherrasannleikann. Jeg hefi einmitt lækkað þennan toll og verið þar stefnu minni samkvæmur. Þá komum við að skattkálfunum fimm. Það var jeg, sem ýtti undir hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) með vitagjaldsfrv., og það var jeg, sem kom með frv. um hækkun afgreiðslugjaldsins. En tekjurnar, sem bæði þessi frv. gefa, verða um 300 þús. kr. Hins vegar var mjer ekki um það, að stjórnin bar fram frv. um bifreiðaskatt, (Fjármálaráðherra: Það er ekki frá stjórninni), og ekki var mjer um frv. hennar um húsaskatt. (Fjármálaráðherra: Heldur ekki frá mjer). Nú, kann ske fjármálaráðherra vilji þá heldur ekki gangast við lestagjaldskróganum. (Fjármálaráðherra: Nei). Jæja, það er ekki mitt að ábyrgjast hvað svo háttsettur maður vill sverja fyrir. Myrkramakkið hefir verið svo mikið milli hæstv. ráðherra og fjárhagsnefndar Nd., að það er ekki gott að segja, undan hvaða rifjum hvert er runnið. En svo mikið er víst, að hæstv. ráðherra hefir tekið þessi afkvæmi að sjer sem sína eigin eign.

Að því er við kemur því í ræðum hæstv. fjármálaráðh. (S. E.), sem snerti efnið sjálft, man jeg ekki eftir öðru en því, að menn ættu að geta bygt hús í Reykjavík með ágóða. Jeg hefi spurt kunnuga menn um þetta, og þeir segja þetta fjarri lagi, þar sem húsaleigulögin nái líka yfir allar nýbyggingar.

Í öðrum kaupstöðum, utan Reykjavíkur, er nú ekkert bygt, nema það, sem bæjarfjelögin sjálf láta gera. Alt þetta virðist mjer benda á, að ekki hafi hæstv. fjármálaráðh. farið alveg rjett með þetta atriði.

En að því er snertir skatt þennan yfirleitt, skal jeg minna á það, að 1877 var húsaskatturinn miðaður við eignaskattinn, en ekki við ábúðarskattinn, og verður þá alt annars eðlis. Þá mega menn einnig muna eftir því, að til er nokkuð, sem heitir fyrning. Og það er ekki síður að virða upp hús fyrir fyrningu, og sjálfur hefi jeg selt hús langt undir húsaskattsverðinu. Úti um land hafa hús víða ekki staðið í því verði, sem þau voru bygð fyrir. Ef maður hefir orðið að flytjast burtu, hefir hann oft orðið að selja hús sitt til rifs. Sömuleiðis hafa embættismenn, sem neyðst hafa til að byggja, oft stórtapað á því, og það svo, að bú þeirra hafa orðið gjaldþrota þess vegna. Húsin virðast því ekki vera sjerlega ábyggilegar eignir. Það er líka vitanlegt,að sumir, sem áttu hús fyrir stríðið, hafa ekki grætt, síður en svo. Alt þetta gerir það að verkum, að skattur þessi getur ekki orðið rjettlátur nema á örfáum mönnum.

Það hefir verið sagt, að koma ætti á jöfnuði í samanburði við ábúðarskattinn. En menn verða þá að minnast þess um leið, að ábúðarskattinn átti að hækka til að jafna skakkann milli atvinnuveganna. En sú hækkun hefir reyndar aldrei komið fram. En það væri svo sem ekki ósvipað „stjettajöfnuði“ hæstv. fjármálaráðh. (S. E.), að auka svona drápsklyfjarnar á bæjalýðnum til að vega upp á móti fjöðrinni, sem lögð var á landbúnaðinn.

Þar sem hjer er að eins um að ræða einar 25 þús. kr., sje jeg, að öllu þessu athuguðu, ekki ástæðu til að samþykkja frv.