25.09.1919
Neðri deild: 73. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 524 í B-deild Alþingistíðinda. (186)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Frsm. fjárveitinganefndar (Magnús Pjetursson):

1 Þá skal jeg halda áfram með brtt.

Þá er næst 4. liður á þgskj. 970, um að styrkurinn til Hólshrepps falli niður. Þessi till. er ekki nema sjálfsögð, þar sem hjeraðið nú hefir lækni á launalögunum.

Þá er 5. liður á þgskj. 970, um að hækka laun aukalæknisins á Ísafirði. Þá till. verð jeg að skýra dálítið nánar. Eins og hv. þm. sjálfsagt muna, þá stóð í 12. gr. launafrv., þegar það fór hjeðan úr deildinni, að aðstoðarlæknirinn á Ísafirði skyldi hafa að launum 2500 kr., hækkandi upp í 3500 kr. En launanefnd háttv. efri deildar gerði það, þó þetta væri samþ. í samvinnunefnd, að hún tók þennan mann út af launafrv., þó með því fororði, að hann skyldi í staðinn tekinn upp í fjárlagafrv. og skyldi ekki bíða neinn halla. Þrátt fyrir þessi heit hv. deildar er nú reynslan sú, að þessi læknir á að fá einar 2000 kr. uppbótarlausar. Menn þurfa ekki langan tíma til að sjá, hvaða munur er á því, sem ákveðið var í launalögunum og þessum 2000kr., sem nefnd Ed. nú leggur til að hann fái. Honum var ætlað í launafrv., eins og jeg tók fram áðan, 2500 kr., hækkandi upp í 3500 kr. Þar við bætist auðvitað uppbótin. Og að henni meðtaldri yrði það eitthvað á 6. þús. kr., sem hann átti að fá samkvæmt launafrv. Af þessum ástæðum vill nefndin nú bæta upp þetta ranglæti, sem þessi læknir hefir orðið fyrir, og leggur því til, að hann fái 4000 kr. hvort árið, í staðinn fyrir 2000. Eins og hver maður sjer, er það þó hvergi nærri fullbættur skaðinn, sem háttv. Ed. bakaði þessum manni. Jeg skal taka það fram, að jeg býst ekki við, að hv. Nd. þurfi að hræðast hv. Ed., þó að þessi till. verði samþ. hjer, því þessi till. var feld í hv. Ed. með jöfnum atkv. Menn þurfa því ekki að kynoka sjer við að samþ. hana hjer. Auk þess býst jeg ekki við, að sumir hv. þm. Ed. haldi þessu til streitu, þegar þeir sjá, að alvara fylgir málinu hjeðan. Enda yrði það að skoðast sem móðgun á móti þessum manni, ef þetta næði ekki fram að ganga.

Þá kem jeg að 6. lið á 970. Um þann lið þarf jeg ekki að fjölyrða, því það er sama till. og nefndin hefir borið upp hjer áður. Hjer er farið fram á að færa augnlækninn upp í þá sömu upphæð, sem hann var í áður. Þegar nefndin bar þá till. fram hjer, þá var hún samþ. mótatkvæðalítið. Við vildum því ekki una við, að þessi liður væri lækkaður, sjerstaklega með tilliti til þess, að allir læknar, sem standa í 12. gr., hafa verið hækkaðir hlutfallslega við þetta. Jeg skal geta þess, að það er ekki ætlast til, að þesir menn fái neina dýrtíðaruppbót af þessum launum.

Þá er næst 7. liður. Það er nýr liður, sem fer fram á að veita Ólafi Hjaltested uppbót á vinnu við að setja niður miðstöð í holdsveikraspítalanum. Hann tók þetta verk að sjer 1915. Og það skal tekið fram, að tilboð hans var miklu lægra en þau útlendu tilboð, sem fram komu. Þegar svo farið var að kaupa verkfæri og vjelar, sem til þurfti, og framkvæmdir á verkinu byrjuðu 1916–17, þá voru vjelar og vinnulaun hækkuð að miklum mun á ófyrirsjáanlegan hátt. Eftir því, sem Ólafur hefir gefið upp samkvæmt reikningi, þá hefir hann skaðast á efnis- og áhaldakaupum um 4–5000 kr. En auk þess nam skaðinn af hækkun vinnulauna 6900 kr. Nú finst okkur í nefndinni ekki vera nema sanngjarnt að bæta þetta upp að nokkru, þar sem sjerstaklega vinnulaun hækkuðu fyr en við mátti búast. Nefndin leggur því til, að honum verði bættur skaðinn, sem hann beið af vinnunni, þannig að hann fái 6000 kr. Það hefir legið fyrir nefndinni skýrsla um vinnukaupið, og er hún áreiðanlega rjett. Þar að auki hafa bæði læknir og ráðsmaður spítalans talið þetta rjettmæta og sanngjarna kröfu. Og sama er að segja um hæstv. forsætisráðh. (J. M.). Jeg býst við, að hæstv. ráðherra lýsi afstöðu sinni til þessa liðs, þegar þann tekur til máls. — En að nefndin skuli ekki fyr hafa komið fram með þessa till., þá stendur þannig á því, að skjölin þessu viðvíkjandi hafa á einhvern hátt farið forgörðum á leiðinni til þings og stjórnar.

Þá kem jeg að 8. lið á 970, um styrk til Kristjáns Símonarsonar á Hraunum til að leita sjer lækninga. — Jeg gæti skilið, þó þessi till. kæmi hv. deild dálítið kynlega fyrir sjónir, því það er ekki venja að veita svona utanfararstyrk nema alveg sjerstaklega standi á um sjúkdóma, sem ekki eru tök á að lækna hjer. Og jeg held, að mjer sje óhætt að segja, að þetta sje sjerstakt, sem hjer ræðir um. Þessi maður, sem sækir um styrkinn, er 26 ára gamall, en er blindur á báðum augum. Hvaða sjúkdómur það er, sem hefir valdið blindunni, hefir nefndin ekki fengið upplýsingar um. Að vísu fylgir vottorð frá hlutaðeigandi hjeraðslækni umsókninni. Í því vottorði telur læknirinn líkur fyrir því, að maðurinn geti fengið lækningu, ef hann kemst sem fyrst til lærðra sjerfræðinga erlendis. Þó álítur nefndin rjett, að sjerfræðingur hjer á landi verði látinn dæma um það, hvort hann telji von um lækningu, svo að maðurinn fari ekki að flækjast til útlanda, ef ekkert bíður hans nema vonbrigði. En ef augnlæknirinn hjer telur þetta ekki vonlaust, þá vill nefndin, að hlaupið verði undir bagga með þessum manni. Eins og jeg tók fram, þá stendur sjerstaklega á með þennan mann. Það er alt útlit fyrir, að hann sje afburðamaður að hugviti og smiðsgáfum. Síðan hann varð blindur hefir hann sýnt svo mikið hugvit og handlægni, að það er næstum ótrúlegt. Hann hefir smíðað ýms áhöld, svo sem rennivjel og ljáklappavjel, sem bera vott um mikið hugvit. Og nú fyrir skömmu hefir hann lokið við sleða, sem gengur fyrir vjelaafli, og er þannig gerður, að hann rennur jafnt hvort sem er á lausamjöll eða ísum. Nefndin leit svo á, að hjer væri um sjerstakan hæfileikamann að ræða, sem sjálfsagt væri að hjálpa, ef hægt væri. Það væri verulegt tjón fyrir þjóðina, ef þessi maður færi forgörðum, jafnmikill hæfileikamaður og hann vafalaust er. Það hefir verið safnað saman upphæð handa honum þar heima í átthögum hans. Enda mundu þær 1500 kr., sem nefndin leggur til að veita, hvergi nærri hrökkva til.

Þá munu ekki vera fleiri brtt. við 12. gr.

En svo eru brtt. við 13. gr., frá fjárveitinganefnd, sem eru á sjerstöku þgskj., 977. Eins og hv. þm. hafa sjeð, þá hefir hv. Ed. breytt liðnum til póstafgreiðslumanna utan Reykjavíkur þannig að hún hefir tekið út af frv. þá, sem standa í launalögunum, póstafgreiðslumennina á Akureyri, Seyðisfirði og Ísafirði, án þess þó að lækka nokkuð upphæðina. Þetta mun gert í þeim tilgangi, að með því, sem sparast við þetta, sje hægt að bæta upp hinum póstafgreiðslumönnunum, sem lægri laun hafa, með sem svarar 25%, en aftur er ekki gert ráð fyrir neinni dýrtíðaruppbót.

Eins og sjest á frv., þá hefir nefndin gert ráð fyrir, að 49 þús. kr. skuli ganga til dýrtíðaruppbótar handa þeim símamönnum, sem ekki standa í launalögunum.

Nú fanst fjárveitinganefnd neðri deildar ósamræmi milli þessara starfsmannaflokka, þar sem öðrum eru ætlaðar dýrtíðaruppbætur, en hinum ekki, sjerstaklega þegar litið er á það, að sumir póstmanna. er ekki standa í launalögunum, hafa eftir núgildandi dýrtíðarlögum, fengið dýrtíðaruppbætur. En nú eru með launalögunum dýrtíðarlögin úr gildi feld, svo að þessir menn geta því enga uppbót fengið, nema í fjárlögum. Eru því þessir menn talsverðum mun ver settir en áður. Er þess vegna tilgangur nefndarinnar að færa þetta í samræmi við aðra starfsmenn. Fyrri till., um 5 þús. kr. lækkun, miðar til þess, að launin haldist nokkurn veginn við hæfi, svo að ekki er bein hækkun á þeim. Að vísu er það örlítið hærra, en er áætlunarupphæð, sem nefndin vildi ekki skera um of við neglur, enda er við búið, að póstmeistari þurfi meira fje. Það bætast við nýjar póstafgreiðslur, og svo þarf ef til vill að hækka þóknunina á einstöku stöðum, til þess að geta haldið fólkinu við starfið. Það getur komið fyrir við póstmálin, eins og símann.

En uppbótin er reiknuð þannig, að gert er ráð fyrir, að þeir menn, sem ekki eru í launalögum, fái alt að 100% dýrtíðaruppbót af 73 launanna. Er það með öðrum orðum talsvert lægri dýrtíðaruppbót en í launalögum. Þessi 30 þús. kr. til dýrtíðaruppbótar eru miðuð við það. Það sýndist nú svo, að dýrtíðaruppbótin ætti að vera 100% af öllum laununum. En þess er að gæta, að þar eru menn, sem fengið hafa dýrtíðaruppbót áður, eða fá samkvæmt gildandi lögum. Eru það skrifstofumenn og póstafgreiðslumenn á stærri stöðum úti um land. Laun þessara manna nema, eftir skýrslu póstmeistara, 13 þús. kr. Með öðrum orðum nema þá öll þessi laun 44 þús. kr. En það er gert ráð fyrir, eins og sjest af till., að af þessari uppbótarfjárhæð sje engin dýrtíðaruppbót veitt til brjefhirða og póstmanna. Það er ómögulegt að gera áætlanir um það, þar sem póstarnir eru ráðnir sitt á hvað, dýrtíðaruppbótarlaust eða með dýrtíðaruppbót. Sama er að segja um brjefhirðana.

Þá vil jeg geta þess, áður en jeg fer út í síðustu brtt. við þessa grein, þar sem ekki hefir unnist tími til að semja nál., að eins og hv. deildarmenn hafa sjeð, hefir hv. Ed. bætt inn athugasemd um símalagningarnar, sem samþyktar voru í Nd., sem er svo hljóðandi:

„Símalínurnar undir staflið c.–e.

(Blönduós—Kálfshamarsvík, Hólmavík—Reykjarfjörður og Búðardalur—Króksfjarðarnes) verði því að eins lagðar, að trygging sje fyrir, að ný lína, lögð fyrir lánsfje, komi jafnframt frá Reykjavík til Borðeyrar. Að öðrum kosti má verja fjárhæðunum, sem til þeirra eru ætlaðar, til lagningar þeirrar línu.“

Þetta er auðvitað ekki að neinu leyti í ósamræmi við það, sem fjárveitinganefnd neðri deildar hjelt fram. Það var altaf gert ráð fyrir, að stofnlínan gangi á undan, og hún myndi aldrei geta hindrað framgang þeirra. Nefndin áleit, að það gæti aldrei komið til mála, að hæstv. landsstjórn gæti ekki fengið lán til hennar. Það er óhugsanlegt í framkvæmd, þótt það sje „teoretiskt“ mögulegt. En til frekari tryggingar vill nefndin skjóta því til hæstv. stjórnar, að svo framarlega sem hún treystir sjer ekki til að afla láns til þessarar símalagningar, nema svo, að það komi í bága við hinar, þá geri hún hlutaðeigandi hjeruðum aðvart, gefi þeim kost á að útvega lánsfje, svo að þau geti sjálfum sjer um kent, ef verkið tefst, eins og gert var ráð fyrir í nál. Nd. nefndarinnar um vinnukraftinn.

Þá er 9. brtt. nefndarinnar, á þgskj. 970. Það er alveg ný till., um að byggja nýjan vita á Hvanney í Hornafirði. Er gert ráð fyrir 6000 kr. fjárveitingu. Óskir um þessa vitabyggingu hafa komið frá Austfirðingum, mjög ríkar. Eftir því sem frá er skýrt, er fiskibátaflotinn á Austfjörðum altaf að færa sig meir og meir til Hornafjarðar. Síðastliðið ár voru þar 20 bátar og í vetur er enn gert ráð fyrir, að þeim fjölgi. Eins og menn vita, bæði af afspurn og eigin reynd, er leiðin inn ósinn mjög ill og vandrötuð, ekki síst í myrkri. Útgerðarmenn eystra hafa því mikinn áhuga á, að þarna komi sem fyrst viti. Vitamálastjórinn hefir skoðað vitastæðið, og telur það í alla staði forsvaranlegt að áætla ekki hærri upphæð, þar sem um smávita er að ræða. Nefndin vill verða við þessum tilmælum, og ætlast til, að vitinn sje bygður fyrra árið, ef kleift er. Svo er eitt, sem mælir mjög með því, að vitinn sje bygður á þessu ári. Einmitt þetta ár er gert ráð fyrir, að bygðir verði vitar í nágrenninu. Yrði dýrara að byggja vitann seinna en sama árið, er ekki þarf að flytja fólk eða áhöld lengri leið. Með því yrði sparað eitthvert fje. Að öðru leyti geri jeg ekki ráð fyrir, að hv. deildarmenn þurfi frekari skýringu. En ef þeir skyldu vilja fá að vita meira um staðháttu, mun hv. þm. A.-Sk. (Þorl. J.) fúslega gefa þær landfræðilegu skýringar, er menn kynnu að óska.

Skal jeg þá að eins nefna brtt, einstakra þm. við þennan kafla. Ein brtt., á þgskj. 968, er um styrk til nokkurra hreppa til læknisvitjunar. Skal jeg að eins geta þess, að um hana hafa nefndarmenn óbundin atkvæði.

Þá er brtt. samgöngumálanefndar. Skal jeg að eins lýsa því yfir, fyrir nefndarinnar hönd, að meiri hluti hennar er hlyntur till. En öllum nefndarmönnum þótti þessi styrkur nokkuð hár, í samanburði við þær samgöngur, er fyrir hann ættu að koma. En jeg gefi ráð fyrir, að hv. samgöngumálanefnd hafi gengið svo vel frá málinu, að ekki hafi verið hægt að komast af með minni fjárupphæð. Annars vona jeg, að frsm. samgöngumálanefndar (B. St.) skýri till.

Skal jeg svo ekki tefja tímann, en vænti þess, að enn sem fyr verði brtt. nefndarinnar rjett metnar og nái fram að ganga.