25.09.1919
Neðri deild: 73. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 531 í B-deild Alþingistíðinda. (187)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Frsm. fjárveitinganefndar (Bjarni Jónsson):

Jeg vildi skýra brtt. nefndarinnar við 14. gr. Er þá fyrst 10. liður, á þgskj. 970, námsstyrkur til íslenskra stúdenta í erlendum háskólum. Þegar stjórnin hjer gerði fyrirspurn um það til Danmerkur, hversu verja skyldi miljóninni þar, sem þeir hafa til umráða, þá var svarað, að hugsað væri til, að sá styrkur yrði fyrir ,,viderekomne“. Sýndist þá varlegra að áætla eitthvað, svo að þeir stúdentar verði ekki í vandræðum, er leita þurfa sjer mentunar í öðrum löndum, í þeim námsgreinum, sem hjer eru ekki kendar við háskólann. Hygg jeg, að þessu sje nokkuð í hóf stilt, því að þessi aðalupphæð er hnitmiðuð við þá, sem sóttu um styrk til þingsins. Hafi því einhver gleymt að sækja, er vafasamt, hvort upphæðin hrekkur til. En sú upphæð, sem ætluð er hverjum einstökum að hámarki, er 1200 kr., sem menn sjá. En eins og menn vita, var „Garðstyrkurinn“, sem eiginlega er íslenskur styrkur, íslenskt kirknafje, nægilegur, eigi að eins fyrir fæði, heldur og húsnæði og þjónustu. Er mjer kunnugt um það, frá því er jeg var í Kaupmannahöfn við nám, að sumir voru svo sparsamir, að þessi styrkur nægði þeim. En nú vita allir, að fæðið eitt kostar yfir 100 kr. á mánuði í Danmörku, þar sem það er einna ódýrast. En í Svíþjóð og Noregi er það enn þá dýrara, svo að þessi styrkur er því tæplega fyrir fæði.

Sú athugasemd er gerð við þennan lið, að ein stúlka, Anna Bjarnadóttir Sæmundssonar skólakennara, skuli fá jafna upphæð af þessum styrk sem aðrir nemendur. Hún ætlar sjer að sækja ágætan skóla í Englandi, einskonar háskóladeild, sem varla getur fallið undir orðið háskóli, eins og það er skilið. Þess vegna vildi fjárveitinganefndin taka það fram, að stjórninni væri heimilt að veita henni styrk til jafns við aðra. Þessi stúlka er frábærlega gáfuð og ágætlega að sjer. Væri því lítið vit í því, að neita henni um styrk, af því einu, að skólafyrirkomulagið í enska heiminum er öðruvísi en annarsstaðar. Geta má og þess, að faðir hennar, Bjarni Sæmundsson, hefir nú lengi verið kennari við lærða skólann, og auk þess um tugi ára haft á hendi fiskirannsóknir hjer við land fyrir 600 kr. árlega. Hefir hann, sem að líkindum ræður, til þeirra ferða greitt fje úr eigin vasa, en eigi ábatast. Þar hefir hann því tekið á sig aukavinnu í landsins þarfir, og greitt fje fyrir að vinna hana. Skil jeg því ekki annað en að einnig frá því sjónarmiði telji hv. þm. það sjálfsagt að lofa dóttur hans að njóta sama styrks og öðrum, einkum þar sem hún er frábærlega gáfuð og mentuð. Vona jeg, að eigi þurfi að orðlengja þetta frekar.

Þá er brtt. við mentaskólann, að setja inn „ræstingar“, til þess að eigi skuli hvíla á dyraverði að borga úr sínum vasa dýra ræstingu, af litlum launum. Auk þess hefir maður þessi undanfarið verið svo illa staddur, að það er hrein hörmung. Hann hefir varla getað teygt svo lánstraust sitt, að hann hafi getað dregið fram lífið. Er þar sama máli að gegna um hann og aðra dyraverði. Þess má geta, að maður þessi hefir staðið ágætlega vel í stöðu sinni, er mjög liðlegur maður, söngfróður og áhugasamur um þá hluti.

Þá er 12. liður mjög eðlilegur frá sjónarmiði nefndarinnar. Bæði neðri deild og efri deild hafa aukið það fje, sem veitt er nafngreindum unglingaskólum, en lækkað á hinum. En á hina hliðina hefir nú nefndin frjett, að einn skóli að minsta kosti muni halda áfram, er áður var ástæða til að ætla, að fjelli niður. Er það skólinn í Hjarðarholti í Dölum. Jörðina hefir nú keypt kennari, sem hefir gott orð á sjer fyrir kenslu. Mun skólinn liggja niðri næsta ár, en síðara ár fjárhagstímabilsins mun hann geta komið til greina, eins og aðrir skólar. Nefndin sá sjer ekki annað fært en að auka fjeð um 3000 kr., og er þá hóti nær, að þeir skólar njóti einhvers góðs af almannafje og sjeu eigi með öllu hornrekur nafngreindu skólanna.

Þá er ætlast til, að við Flensborgarskólann sje bætt einu þúsundi, því að svo telst til, að skólastjórinn þar, sem er vel metinn og góður kennari, fái ekki að öðrum kosti neina dýrtíðaruppbót, samskonar og greidd er öðrum starfsmönnum ríkisins. En skóli þessi er ekki ríkisstofnun, og hvorki Alþingi nje stjórn vill því að öðru leyti skifta sjer af honum, eða beinlínis takast á hendur frekari skyldur en verkast vill og hvert Alþingi ákveður. En þetta þótti nefndinni sæmilegt, að hækka svo, að fært væri, vegna fjárskorts, að líta á þessa nauðsyn. Býst jeg við, að maðurinn sje að svo góðu kunnur, að menn muni ekki á neinn hátt ýfast við þessa litlu fjárveitingu.

Þá á nefndin eina till. enn við þessa grein. Er hún þess efnis, að kennarinn í gotnesku við háskólann skuli fá 3500 kr. í stað 2800 kr. Af stjórninni var í fjárlög sett sama upphæð og svo kallaðir „docentar“ hafa haft. En nú hækka þeir með launalögunum upp í 3500 kr. Nú þykir nefndinni ekki nema hæfilegt að halda þessu eins og stjórnin ætlaðist til, að þessi maður fái sömu upphæð og docentarnir að byrjunarlaunum. Nú er þess líka að gæta, að þessi maður naut uppbótar síðastliðið ár. Býst jeg við, að því hafi þótt sjálfsagt, að hann hefði læsri laun. En jeg verð að harma mjög, að þessum manni hefir ekki verið ákveðin nein dýrtíðaruppbót frá þinginu nú, því að það er lítill heiður að fara svo með ungan og efnilegan vísindamann, áhugameiri en flestir aðrir. En jeg vænti nú, að háttv. deild samþykki þessa litlu till. En hins vænti jeg og, að stjórnin sjái svo um, að þessi maður fái ekki lægri laun en símamenn og póstþjónar og aðrir slíkir vísindamenn, sem borguð er uppbót.

Svo er og ein till. frá háttv. 1. þm. Skagf. (M. G.), um skólann á Hólum. Fjárveitinganefnd hefir ákveðið að mæla með þessari till., því að henni þykir rjett að veita þetta, þar sem verkið er stíflugerð og getur komið að fullum notum til vatnsveitinga, þótt eigi yrði af rafveitu. Býst jeg við, að eigi þurfi önnur meðmæli með till. en nafn flutningsmanns, því að kunnugt er, að hann er enginn gapi í fjárveitingum.

Man jeg nú eigi fleira viðvíkjandi 14. gr., sem jeg þyrfti að minnast á fyrir nefndina, svo að jeg get látið úttalað um þennan kafla.