25.09.1919
Neðri deild: 73. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 534 í B-deild Alþingistíðinda. (188)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Frsm. samvinnunefndar samgöngumála (Björn R. Stefánsson):

Samgöngumálanefnd á nokkrar brtt. á þgskj. 973, og tel jeg mjer skylt að gera nokkra grein fyrir þeim. Eins og kunnugt er, fór svo við 2. umr., að annað fjelagið, sem um styrk sótti til strandferða við Faxaflóa, varð út undan. Samt hafði nefndin fengið þær upplýsingar um fjelagið, að það ætti von á góðu skipi, og að það hefði verið stofnað í þeim tilgangi, að bæta samgöngur hjer umhverfis. Þegar nú nefndin fór að hugsa um þetta, fanst henni það ekki vera viðunandi að veita því engan styrk. Þess vegna tók hún það til athugunar, hvort ekki væri hægt að bæta úr þessu, þótt seint væri, og veita því einhvern styrk, en treysti sjer þó ekki til að leggja það til, nema hún þá sæi veg til þess að spara önnur útgjöld. Þess vegna fór nefndin að semja áætlanir um ákveðnar ferðir, því að öðrum kosti var ekki að tala um, að fjelagið fengi styrk, en að það hjeldi uppi vissum áætlunarferðum, er almenningur vissi um. Til þess að spara önnur útgjöld sá nefndin ekki aðra leið en að breyta svo ferðum Sterlings, að væntanlegt tap af hennar ferðum yrði minna en ella, og næðist þannig upp í styrkinn til þessa fjelags.

Af þessum ástæðum rjeðst nefndin í það, að búa til uppkast að nýrri áætlun fyrir Sterling, og sömuleiðis nýja áætlun fyrir Suðurland. Þessi áætlun var ekki gerð fyr en í fyrradag, og var hún ekki lögð fyrir nefndina fyr en í gærmorgun Það var því ekki hægt að prenta hana fyrir þennan fund. Þegar við töluðum við fulltrúa fjelagsins í gær, ljetum við þess getið, að það væri krafa nefndarinnar, að þetta skip færi fastar ferðir eftir áætlun; yrði hún samin í sambandi við áætlanir hinna skipanna, svo að það í ferðunum austur mætti altaf Sterling á Fáskrúðsfirði, en í vesturferðunum skipi Þorsteins Jónssonar á Ísafirði. En þetta áætlunaruppkast mætti ýmsum athugasemdum hjá sumum nefndarmönnum. Vildu þeir bæta inn á áætlunina ýmsum viðkomustöðum í hjeruðum sínum. Loksins var áætlunin orðin svo, að ekki var unt fyrir nokkurt skip að sigla eftir henni. Af þessari ástæðu, meðal annars, var hún ekki prentuð. Af þessu má sjá, að nefndin skildi full ágreinings um þetta mál. En það var líka annað, sem nefndina greindi á um. Vil jeg taka þetta fram, því að það verður ekki annað sjeð á þgskj. 973 en að nefndin sje öll á sama máli. Vil jeg geta þess, að 3. liður brtt. var samþyktur með 5:4 atkv. Verður því að telja þann lið að eins frá þeim meiri hluta samgöngumálanefndar, sem mætti á fundinum. Þetta má nú ekki skilja svo, að þessir 4 hafi verið á móti því að styrkja fjelagið, en okkur þótti styrkurinn of hár í samanburði við notagildi ferðanna og saman borið við þann styrk, sem öðrum fjelögum er veittur. Vil jeg geta þess persónulega fyrir mig, að eftir að jeg skoðaði skipið, fjell jeg algerlega frá því að veita því svona háan styrk. Skipinu hafði verið lýst mjög glæsilega fyrir mjer, en er jeg sá það, varð jeg fyrir vonbrigðum, eins og oft vill verða, þegar búið er að lýsa einhverju glæsilega fyrir manni, þá á maður von á svo miklu, og svo samsvarar það ekki lýsingunni. Fyrir hönd Austurlands, sem á að missa að mestu leyti ferða Sterlings milli Austurlandsins og Reykjavíkur, get jeg alls ekki gengið inn á, að þetta skip sje hæft til fólksflutnings, svo langa leið, eða fullnægi fólksflutningaþörfinni þaðan og hingað til Reykjavíkur. Á skipinu er að vísu viðunanlegt pláss fyrir 30 manns í 2–4 daga. Það pláss, sem kallað er millidekk, er svo óviðunandi og óvistleg vistarvera, að þar getur ekki fólk hafst við dögum saman. Jeg vona, að flestir þingmenn hafi skoðað skipið. Jeg gerði það, sem í mínu valdi stóð, til þess að fá þá til þess í gær. Ætla jeg svo ekki að lýsa útbúnaði skipsins nánar. Mjer dylst það ekki, að ef þessi áætlun yrði samþykt, þá mundi eitthvað sparast við ferðir Sterlings, en ferðirnar, fyrir Austurland að minsta kosti, verða margfalt verri. Þess vil jeg og geta, að jeg og annar maður úr samgöngumálanefnd færðum þetta nýja fyrirkomulag, eða uppástunguna um það, í tal við framkvæmdarstjóra Eimskipafjelags Íslands og ljet hann vel yfir.

2. lið brtt. á þgskj. 973 kann jeg ekki við. Finst mjer þar vera of hvast til orða tekið. Auðvitað er það ekki nema sjálfsagt, að stjórnin gangi ríkt eftir, að skilyrðunum sje fullnægt, en eftir þessum lið lítur svo út, sem hægt sje að svifta Þorstein Jónsson öllum styrknum, hversu lítið sem út af bjátar. Finst mjer alveg nægilegt, að stjórnin viti það, að það sje vilji samgöngumálanefndar, að hún líti vel eftir skipinu og gangi ríkt eftir skilyrðunum.

Býst jeg við, að margir þurfi að tala í þessu máli, og læt jeg því hjer staðar numið fyrst um sinn.