25.09.1919
Neðri deild: 73. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 538 í B-deild Alþingistíðinda. (190)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Þorsteinn Jónsson:

Jeg vil að eins segja örfá orð viðvíkjandi brtt. samgöngumálanefndar.

Mörgum mun þykja nokkuð hár styrkurinn, sem Alþingi hefir veitt til samgöngumála, en þrátt fyrir það hefir samt sumum landshlutum ekki verið sjeð fyrir nægilegum samgöngum. Jeg hefi heyrt, að á ferðinni væri till. þess efnis, að sameina styrkinn til Sterlings og til þessa fjelags, og hafa endastöðina á Austfjörðum. Er þá tilætlunin, að Sterling og Suðurland mætist á Fáskrúðsfirði. En ef endastöðin á að vera á Fáskrúðsfirði, þá get jeg ekki gengið inn á, að þessi styrkur yrði tekinn inn í fjárlögin. því að þær ferðir mundu koma að litlu haldi á Austfjörðum. Fáskrúðsfjörður er alls ekki aðalkaupstaðurinn á Austurlandi, heldur eru það bæði Norðfjörður og Seyðisfjörður. Er einkum sá síðartaldi miðstöðin fyrir samgöngur allar þar eystra, enda er þangað þægilegt að sækja úr hjeraði, enda mun flest fólk leita þangað, ef það þarf að komast eitthvað, en alls ekki til Fáskrúðsfjarðar. Það mætti því breyta áætluninni svo að í stað þess, að Sterling og Suðurland mættust á Fáskrúðsfirði, þá mættust þau á Seyðisfirði. Þessi áætlun, sem samin hefir verið af undirnefnd samgöngumálanefndar og síðan prentuð, án þess að hún hafi verið borin undir alla samgöngumálanefnd, er mjög ranglát, eða að minsta kosti verður mitt kjördæmi herfilega út undan. Eins og kunnugt er, á skip Þorsteins Jónssonar að annast ferðir frá Ísafirði og til Austfjarða, en skipið er svo lífið, að það mun alls ekki geta fullnægt flutningaþörfinni á þessum fjörðum enda er svo, að samgöngumálanefnd ætlast til, að Sterling annist þessar strandferðir líka. Væri ekki vanþörf á, að slíkt hið sama gilti um Austfirði.

Viðvíkjandi Sterlingsáætluninni vil jeg taka það fram, að nefndinni hefir sjest herfilega yfir hvað samræmið snertir á samgöngum Norður-Þingeyjarsýslu og Norður-Múlasýslu. Verslunarmagnið í Norður-Múlasýslu, að undanteknum Seyðisfirði, er helmingi meira en í Norður- Þingeyjarsýslu. Samt á Sterling að koma fjórum sinnum á Kópasker og fjórum sinnum á Þórshöfn, en ekki nema tvisvar á Borgarfjörð og tvisvar á Bakkafjörð. Viðvíkjandi kostnaðinum við innsiglinguna, er hann enginn inn á þessa tvo firði, ekki annað en að kasta akkerum, en aftur á móti er mjög löng innsigling á Þórshöfn.

Vona jeg að hv. samgöngumálanefnd athugi þessar misfellur, en ef hún treystir sjer ekki til þess, þá vona jeg að stjórnin líti ekki á þessa áætlun sem fullnaðaráætlun, heldur breyti henni eftir þörfum.

Viðvíkjandi Eimskipafjelagi Suðurlands vil jeg láta þess getið, að jeg get alls ekki fallist á að því verði veittur svona hár styrkur, ef skip þess á ekki að fara lengra en á Fáskrúðsfjörð.