10.09.1919
Neðri deild: 60. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1900 í B-deild Alþingistíðinda. (1917)

142. mál, fulltrúar bæjarfógeta

Bjarni Jónsson:

Jeg get ekki að því gert, að sjeð með ólöglærðum augum virðist frv. þetta allundarlegt. Finst mjer þó ekkert undarlegt við aðra grein, og sje jeg ekkert á móti henni. Jeg sæi heldur ekki neitt sjerstakt á móti því, að þessir ungu fulllrúar geti skipað dómarasæti í lögreglumálum.

En það finst mjer undarlegt, ef fela má þessum mönnum sakamálsrannsókn á ábyrgð annars manns. Það er sagt í nál., að þeir hafi rjett til þess að vera sýslumenn og dæma í því embætti í sakamálum. En sá, sem er sýslumaður, dæmir mál og rannsakar á eigin ábyrgð, en einskis annars manns. Hann getur ekki varpað sökinni á annan, ef miður tekst. Hins er líka að gæta, að þar sem ræða er um þau hjeruð, þar sem mest er um þesskonar afbrot, er sakamál mega af spretta, þar er harla óviðkunnanlegt að fá þetta starf í hendur alveg óæfðum mönnum, er eiga að rannsaka málið, ekki á eigin ábyrgð, heldur annars manns.

Þau tvö dæmi, er hv. 2. þm. Árn. (E. A.) tók, sanna ekki alveg það sama og hann sagði, því að báðir þessir menn hafa verið settir sýslumenn, og á eigin ábyrgð, að minsta kosti annar þeirra, og haft ýmis önnur vandamál með höndum.

Svo er enn eitt, sem mjer þykir dálítið undarlegt. Það er ekki nema 1–2 ár síðan skift var bæjarfógetaembættiuu í tvent, og annar maðurinn tók við dómstörfunum, en hinn lögreglustörfunum. Áður hafði einn maður öll þessi störf með höndum. Hann gat auðvitað látið fulltrúa sinn annast lögreglustörfin að einhverju leyti. En hann hafði líka altaf nægan tíma. Og man jeg ekki, að í tíð þeirra manna, er jeg hefi þekt í því embætti, hafi nokkuð dregist þeirra dómar. Þeir komu jafnan í tæka tíð og þóttu góðir.

Mjer þykir það því dálítið undarlegt, að nú kemur þetta frv. fram, sjerstaklega vegna tímaleysis dómarans. Jeg skil ekki, hvers vegna dómarinn hjer hafði t. d ekki tíma til að rannsaka þessi 2 mál, sem hjer hafa verið nefnd, en nú er ljett af. Síðan skifting starfsins fór fram er því minni ástæða til, að hann þurfi annan mann sjer við hlið.

Jeg segi fyrir mitt leyti, að væri jeg bæjarfógeti hjer í Reykjavík, mundi mjer ekki detta í hug að fela öðrum að fara með dómsvaldið en sjálfum mjer. Skal jeg ekki á neinn hátt telja mig jafnfæran og hina hálærðu lögfræðinga þessarar deildar að dæma um þetta atriði frá lögfræðilegu sjónarmiði, en þar sem jeg á mál mín undir dómaranum hjer í Reykjavík, get jeg lýst því yfir, að jeg vildi ekki láta dæma mig af dómara, sem dæmir á annars manns ábyrgð, en ekki sína eigin.

Jeg get því ekki veitt þessu frv. fylgi mitt.