10.09.1919
Neðri deild: 60. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1906 í B-deild Alþingistíðinda. (1921)

142. mál, fulltrúar bæjarfógeta

Bjarni Jónsson:

Annaðhvort eldist árgalinn nú, þar sem er háttv. sessunautur minn (E. A.), eða hann tekur ekki vel eftir. Mjer var það altaf ljóst, að dómsmálaráðherra ætti að löggilda manninn, en jeg vissi líka, að þessi löggilding fer fram eftir tillögu bæjarfógeta. Maðurinn verður því ekki valinn úr flokki umsækjenda sem kynnu að sækja um stöðuna. Það er því alt öðruvísi varið um veitingu þessa embættis en um veitingu annara embætta, sem dómsmálaráðherrann veitir, því að í raun og veru veitir bæjarfógetinn embættið. Þá talaði hv. sessunautur minn (E. A.) um, að yngri menn hefðu sterkari hvöt til þess að inna verk sitt vel af höndum heldur en eldri menn. Jeg er alveg á sama máli og hann um þetta. En það, sem jeg sagði, var, að hvort heldur maðurinn væri eldri eða yngri, þá sje hvötin sterkari, ef hann vinnur á eigin ábyrgð, heldur en ef hann vinnur á annars manns ábyrgð. Held jeg svo, að jeg hafi ónýtt hin nýrri rök hans.