28.07.1919
Neðri deild: 19. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1910 í B-deild Alþingistíðinda. (1932)

68. mál, gjald af innlendri vindlagerð og tilbúningi á konfekti og brjóstsykri

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Með lögum nr. 41, 16. nóv. 1907, er lagður tollur á innlenda vindla- og bittergerð. Frv. þetta, er endurtekning á texta þeirra laga, með þeirri breytingu, að bittertilbúningurinn er fallinn úr, eins og gefur að skilja, í bannlandi. Í stað þess er nú lagður tollur á brjóstsykur- og konfektgerð. Þetta sýnist vera öldungis rjettmætt, þegar þess er gætt, að tollur á aðflutningi þessarar vöru er orðinn mjög hár og jafnframt um ónauðsynjavöru að ræða, sem í eðli sínu er góður tollstofn. Og þó hjer sje um innlendan iðnað að ræða, þá þykir ekki rjett að láta hann dafna í skjóli verndartolls. En svo yrði tollurinn á aðfluttum vindlum, brjóstsykri og konfekt að teljast, ef þessi kæmi ekki á móti. Hjer sýnist líka farið hóflega í sakirnar, þar sem tollurinn er að eins þriðjungur á móti aðflutningstollinum. Brtt., sem nefndin hefir komið með, eru sjálfsagðar. Önnur er að eins prentvilla, 91 fyrir 41 Hin er um að fella úr innheimtulaun til lögreglustjóra. Þetta er þegar niður fallið hvað Reykjavík snertir. Og nú er gert ráð fyrir að fella niður allar aukatekjur tollheimtumanna.

Jeg tel óþarft að taka fleira fram viðvíkjandi frv., en vænti þess, að það verði samþ., eins og nefndin leggur til.