25.09.1919
Neðri deild: 73. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 543 í B-deild Alþingistíðinda. (194)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Jón Jónsson:

Það er á ferðinni frumv. um stofnun læknishjeraðs í Hróarstungu, og eru örlög þess óviss. Till. á þgskj. 968 er fram komin til þess, að eitthvað verði gert, ef frv. skyldi falla. Þegar þess er gætt hvað þingið hefir gert í samskonar málum, þá mælir öll sanngirni með því, að þessi till. verði samþykt. Jeg ætla ekki að lýsa því, hve menn eiga þarna örðugt með að ná til læknis; því hefir verið lýst áður, og um þörfina verður ekki deilt. Vitanlega fjelli þessi styrkveiting niður, ef frv. verður samþykt; hún er að eins til vara.

Þá á jeg brtt. við 13. gr., um að lækka styrkinn til strandferða sunnanlands úr 50 þús. kr. niður í 35 þús. kr. Jeg heyrði að nefndin fjelst á till. hv. þm. S.-Þ. (P. J.), um að láta stjórnina ákveða áætlunina og sundurliða styrkveitinguna, svo að það er víst þýðingarlaust að bera fram þessa till., en mitt álit er það, að 35 þús. kr. nægi til þessara strandferða. En ef það verður ofan á, að stjórnin ákveði þetta, þá er ekki til neins að ræða það frekar hjer. En jeg vildi skjóta því til stjórnarinnar að athuga rækilega, hvort 50 þús. kr. eru ekki fullhár styrkur, með því fyrirkomulagi, sem hjer er farið fram á. Jeg sje ekki ástæðu til að taka till. mína aftur nú, en ætla að bíða og sjá. hverju fram vindur.