27.08.1919
Efri deild: 41. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1920 í B-deild Alþingistíðinda. (1953)

68. mál, gjald af innlendri vindlagerð og tilbúningi á konfekti og brjóstsykri

Guðjón Guðlaugsson:

Jeg fæ ekki skilið, hversu upplýsingum hæstv. fjármálaráðh. (S. E) er farið, þar sem hann telur, að eigi þurfi nema 2/3 úr hrátóbakspundi til að gera vindlapund. Jeg veit ekki, hvaða efni er sett í vindlana, er fái unnið upp þungamismuninn. Jeg hefi verið samtíða stúlku, er vann að tóbaksgerð, og segir hún mjer, að við vindlagerð gengi mikið af leggjum úr tóbakinu, og fá allir skilið, að það hljóti svo að vera, einkum þegar um góða vindla er að ræða. Það er því eðlilegt, að tóbakið rýrni, en eigi hið mótsetta, sem vera ætti, ef þessar upplýsingar væru rjettar. Það mun láta sönnu nær, að rúmlega þurfi pund af hrátóbaki í vindlapundið.

Þegar rætt var um gjald á konfektgerðinni um daginn, var því haldið fram að sá, er hefir slíka verksmiðju hjer, hr. Magnús Blöndahl, hefði sagt, að hann væri ekki á móti þessum tolli. en hann hefir tekið það fram við mig, að þetta væru helber ósannindi. Hitt mun vera, eins og gengur um fleiri sögur hjer á þingi, að þetta hafi gengið mann frá manni og verið aukið og lagfært eftir hentugleikum og geðþótta flytjendanna, og síðast hjer í deildinni af hv. 2. þm. Húnv. (G. Ó.) Nei, þetta er þvert á móti, hann segir, að ef tollurinn verði jafnhár og frv. ráðgerir, þá búist hann við, að hann muni hætta, en hann geti sætt sig við 50 aura toll á kílóið. Síðastliðin ár hefir hann framleitt 30–40000 kíló af brjóstsykri á ári., og ef 50 aura gjald væri lagt á hvert kíló, þá yrðu tekjur ríkissjóðs af þessu 15–20000 kr. á ári. Þetta er nokkur upphæð, og með því að setja tollinn hæfilegan hefir þingið vissu fyrir tekjum af þessu, en ef tollurinn er settur eins og frv. gerir ráð fyrir, þá yrði hann of hár, verksmiðjan mundi hætta og tekjurnar yrðu engar. Hagnaðinn af því fæ jeg ekki skilið.

Viðvíkjandi stimpilgjaldinu vil jeg ekki þrátta frekar, fyrst jafnfróður maður og hv. frsm. (G. Ó.) hefir fullvissað um rjettan skilning á því; jeg tel líklegt að dómstólarnir mundu frekar dæma eftir ummælum jafnviðurkends heiðursmanns en eftir orðalagi frv., til þess mun hann að minsta kosti ætlast. Eins og nú er, kostar verslunarleyfi 50 kr., en atvinnuleyfi 100 kr. Jeg hjelt þó, að atvinnuleyfið væri meinlausara og ætti að vera ódýrara.

Þegar verið er að ræða um þessa tolla, og menn vilja leggja háan toll á þessar 2 tegundir. þá vil jeg benda á, að alveg er gengið fram hjá 3. tegundinni, sem þó er skyld þessum; það eru gosdrykkir, og þó er aðalefni þeirra vatnið, ótollað. Ef ástæðan væri sú með frv. að fá tekjur, þá hefði nefndin ekki átt að ganga fram hjá þeim, í því er ekkert samræmi, en jeg hefi ekki borið fram brtt. um þetta, af því jeg er mótfallinn þessari stefnu; jeg vil fremur láta hlynna að öllu því, er eflir atvinnu og iðnað í landinn. „Holt er heima hvað“ er fornt og rjett orðtak.

Ef þessi hái skattur nefndarinnar verður samþyktur, má enn fremur benda á það, að víst mun vera, að niður falli tekjuskattur sá, er hún hefir greitt. Eru það og tekjur, sem fleygt er frá sjer fyrir ekkert nema dutlunga nefndarinnar.