27.08.1919
Efri deild: 41. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1922 í B-deild Alþingistíðinda. (1955)

68. mál, gjald af innlendri vindlagerð og tilbúningi á konfekti og brjóstsykri

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Hv. 4. landsk. þm. (G. G.) kom ekki fram með neinar verulegar upplýsingar, og því óþarft að svara honum mörgum orðum. Hann kvaðst hafa talað við brjóstsykurframleiðanda, og hefði hann látið illa yfir þessari tollhækkun. Því er að svara á þá leið, að í nefndinni komu fram áreiðanlegar upplýsingar um það, að einmitt sá sami framleiðandi hefði lýst því yfir, að hann væri, eftir atvikum, ekki óánægður með tollinn.

Hvað vindlatollinum viðvíkur, finst mjer óþarfi að breyta honum frá því sem segir í frv., þar sem upplýst er að enginn rekur vindlagerð hjer á landi, og því engar nauðsynjar reka til tolllækkunar.

Hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) benti á, að ekki myndi þurfa meira en 2/3 af tóbaki í 1 pund af vindlum, en hv. 4. landsk. þm. (G. G.) bjóst aftur á móti við, að talsvert af vindlum og brjóstsykri myndi fara í súginn hjá framleiðendum.

Mjer finst besta lausnin á málinu vera sú, að láta gamla tollinn standa og samþ. frv. óbreytt.

Hv. 4. landsk. þm. (G. G.) sagði í gær í öðru máli, að vaxandi heimska væri að gera vart við sig í þinginu, sjerstaklega í Nd., en jeg er hræddur um, ef svo er, að Ed. sje líka nokkru þynnri en áður var, t. d. þegar lagður var tollur á þessar vörutegundir í upphafi.