27.08.1919
Efri deild: 41. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1923 í B-deild Alþingistíðinda. (1956)

68. mál, gjald af innlendri vindlagerð og tilbúningi á konfekti og brjóstsykri

Halldór Steinsson:

Hvað snertir vindlatollinn vil jeg taka það fram, að hjer er ekki um neinn nýjan toll að ræða. Þessi tollur var lagður á 1917, og var þá jafnómögulegt, að innlend vindlagerð gæti þrifist, sem nú. Spurningin er, hvort menn vilji að ríkissjóður hafi nokkurn verulegan ágóða af tóbakstollunum, því augljóst er, að lækki tollur á innlendum vindlum, þá skerðir það að mun tóbakstolliun í heild sinni.

Annars stóð jeg upp til þess að andmæla orðum hv. 4. landsk. þm. (G. G.) um það, að álits brjótsykursgerðarmannsins hafi ekki verið leitað áður en tollurinn kom til umræðu í nefndinni. Brjóstsykursgerðarmaðurinn bað einn þm. úr Nd. að finna sig til að tala um þetta mál, og hefir sá þm. sagt, og það síðast nú á þessu augnabliki, að brjóstsykursgerðarmaðurinn hefði lýst því yfir, að hann gæti sætt sig við þann toll, er frv. tiltekur, þegar tillit væri tekið til hækkunar aðflutningsgjalds á innfluttum brjóstsykri.