25.09.1919
Neðri deild: 73. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 544 í B-deild Alþingistíðinda. (196)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Sveinn Ólafsson:

Háttv. þm V.-Sk. (G. Sv.) lagði áherslu á, að Suðurland og Vesturland hefði orðið út undan með strandferðir, og bæri því að styrkja „Suðurland“ til strandferða þar sjerstaklega. Jeg trúi því vart, að hv. þm. (G. Sv.) hafi sagt þetta í fullri alvöru, ef hann annars hefir lesið yfir fjárlagafrv.; að öðrum kosti mundi hann varla hafa sagt þetta. Því að þegar að er gáð, þá eru, auk styrksins til strandferða umhverfis land alt, veittar um 70 þús. kr. á ári til bátaferða á flóum og fjörðum við Vesturland og Suðurland og enginn þess kyns styrkur til annara landshluta. Jeg get því ekki verið samþykkur hv. þm. (G. Sv.) um að þessir landshlutar verði út undan með strandferðir.

Hv. þm. (G. Sv.) ljet þess og getið, að jeg væri málsvari fjelags þess, sem tekið hefir að sjer strandferðirnar við Norður- og Austurland. Það er jeg ekki, enda engin ástæða til að telja mig það, þótt jeg skýrði frá því, sem aðalmaður fjelags þessa ljet uppi við mig, að hann teldi fjelag sitt eigi bundið við tilboð þess, ef annað skip yrði styrkt til að gerast keppinautur þeirra ferða. En nú hefir hv. þm. (G. Sv.) skýrt frá því, að engin slík samkepni yrði styrkt, og ætti hann að reyna að sannfæra þá um það, sem hjer eiga hlut að máli, fremur en vera með staðlausar dylgjur til mín, út af því einu, að jeg vara við þessu.

Hv. þm. (G. Sv.) ljet einnig í veðri vaka, að hið umrædda fjelag mundi ekki geta efnt gefin loforð, eða útvegað skip sem hæfilegt væri til strandferðanna. Mjer finst koma fram í orðum hv. þm. (G. Sv.), sem og í 2. lið brtt. samgöngumálanefndar, vantraust á fjelaginu, og veit jeg ekki, á hverju það byggist. Jeg fyrir mitt leyti tel óþarft, og jafnvel miður viðeigandi, að samþykkja þennan lið í brtt., því að ef samningar við stjórnina verða vanhaldnir, getur hún eflaust komið ábyrgð fram á hendur fjelaginu og er hreinasti óþarfi að vera minna hana á slíkt í fjárlögunum.

Að öðru leyti er allur dagur til stefnu með að útvega strandferðaskip, sem eigi á að hefja göngu fyr en í apríl, og skil jeg ekki, hví hv. þm. (G. Sv.) er að fetta fingur út í það að skipið er ókomið. Hann býst þó varla við því, að það verði látið liggja hjer til sýnis í 6 mánuði, áður það byrjar strandferðir.