01.09.1919
Efri deild: 45. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1939 í B-deild Alþingistíðinda. (1999)

140. mál, landhelgisvörn

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg hefi búist við því, að þegar við tökum upp landvarnirnar, að einhverju eða öllu leyti, þá höfum við það á svipaðan hátt og aðrar þjóðir, þannig, að skipin sjeu svo vel útbúin, að þau geti höndlað þá seku bæði utan og innan landhelginnar, en mjer líst svo, að þetta sje ekki hægt eftir frv. En ef vörnin á að vera örugg, þá væri kostnaðurinn meiri. Fólk það, sem gert er ráð fyrir í nál. að skipið hafi, er of fátt til þess, að það geti haft slíkar varnir; það verður að vera svo mannmargt, að það geti sett menn úr varðskipinu yfir í fiskiskip til þess að láta flytja það til lands.

Ef nefndin aftur á móti ætlast til, að hjer sje einvörðungu um lögregluvörn að ræða, þá sýnist mjer skipið vera of stórt. Mjer hefir verið sagt, að Ameríkumenn noti mótorskip eigi allstór, og það meðal annars af þeirri ástæðu, að það sjest enginn reykur frá þeim, og verður því síður vart við þau en gufuskip.

Mjer skilst, að nefndin vilji hraða málinu, en er ekki rjettara, áður en ákvörðun er tekin, að yfirvega og undirbúa rækilega alt skipulag um landvarnir vorar og gæta að, á hvern hátt þær yrðu hagfeldastar fyrir okkur?

Ef á að kaupa eins stórt skip og nefndin ráðgerir, þá efa jeg, að það fáist fyrir 500–600 þús. kr. Það er kunnugt, að það er ekki hægt að fá einfalt botnvörpuskip nú fyrir öllu minna en 600 þús. kr., og það yrðu þó að vera meiri þægindi um borð í landvarnarskipinu en þeim, svo skipið hlyti að verða dýrara.

Jeg er samdóma nefndinni um, að eitthvað þurfi að gera í þessu, en jeg hygg, að þingið, með öllum öðrum störfum sínum, geti ekki undirbúið þetta mál svo vel sje; best teldi jeg fara á því, að því væri vísað til stjórnarinnar, til þess að hún útvegaði allar skýrslur og upplýsingar um það, en á meðan á þeirri rannsókn stæði mætti fá báta eða skip til að halda vörnum uppi, t. d. líkri vörn og nú er við síldveiðarnar.