01.09.1919
Efri deild: 45. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1940 í B-deild Alþingistíðinda. (2000)

140. mál, landhelgisvörn

Karl Einarsson:

Jeg vil að eins fara nokkrum orðum um áætlunina af því að jeg hefi átt nokkurn þátt í henni, ásamt þeim mönnum, er þekkja til botnvörpuútgerðar.

Jeg skal strax taka það fram að það er meining nefndarinnar, að skipið geti elt fiskiskip út fyrir landhelgina, og því er kaup skipstjóra sett svo hátt. Nefndin bjóst við því, að fyrir þá upphæð væri hægt að fá fyrirliða úr viðurkendum her, og hún hefir fulla ástæðu til að líta svo á, því fyrir líka borgun er slíkur maður ráðinn til fiskifjelags Vestmannaeyinga. Kaup annara er ekki miðað við það, að það sjeu fyrirliðar úr hernum. Það er rjett, að skipið er of stórt fyrir lögreglueftirlit, en nefndin var öll samdóma um, að hjer ætti að vera fullkomið eftirlit.

Hjer við land er stundaður sjór alla tíma árs, og oft verða slík eftirlitsskip að vera á ferð þegar telja má alósjófært veður, og þá eru þessir smábátar hreinir manndrápsbollar, og því ekki rjett að hafa þá til eftirlits, enda þyrfti skipið þá eflaust oft að fást við bjarganir. Auk þessa skips þarf smábáta fyrir Norður- og Vesturlandi, en þeir eru með öllu þýðingarlausir hjer syðra, þar sem sjórinn er stundaður að vetrinum.

Nefndin ætlast til þess, að skipin verði eins og miðlungsbotnvörpungar, svo að þau þurfi, eins og frönsku botnvörpuskipin, ekki að leita hafnar nema þegar þörf gerist.

Nefndin játar, að málið er ekki eins vel undirbúið og óskandi væri, en með frv. eru stjórninni gefnar svo lausar hendur, að hún getur gert það, sem hún vill, og ef stjórnin sjer, að kostnaðurinn verður til dæmis helmingi meiri en ráðgert er, þá getur hún afsakað sig með því og látið vera að framkvæma málið. En ef frv. verður samþykt, þá verður stjórnin að vinna að málinu og því hefir athugasemd hæstv. forsætisráðh. (J. M.) styrkt mig í því, að rjett sje að samþykkja frv.