01.09.1919
Efri deild: 45. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1942 í B-deild Alþingistíðinda. (2002)

140. mál, landhelgisvörn

Magnús Torfason:

Jeg ætla mjer ekki að blanda mjer í deiluna milli hæstv. forsætisráðherra og nefndarinnar. Jeg vil að eins geta þess, að stjórnin verður að haga rekstri skipsins eins og rjettast og hentast þykir, en á ekki að vera bundin við áætlunina um það eða bygging skipsins.

En það er annað atriði, er jeg vildi sjerstaklega minnast á. Jeg get ekki fallist á það álit nefndarinnar, að það sje eðlilegt, að landhelgisvarnir Dana sjeu litlar eða sama sem engar, því það er sýnt, að skipið getur gert mikið gagn, og svo var á meðan Danir fengu nokkurn hluta sektanna. En eftir að sá hluti, illu heilli, var tekinn af þeim, hefir vörnunum hrakað ár frá ári, og nú orðið er mjer ekkert gagn að þeim. Þeim er hagað svo, að skipið er þar sem þess er síst þörf, og ef það er á þeim slóðum, sem vera ber, hefst það mest við á höfnum inni.

Það var ákveðið í sambandslögunum, að Danir skyldu hafa varnir þessar svo sem verið hefir, en þær eru stórum verri nú en áður, nema ef miða á við stríðsárin, sem engri átt nær. Það verður því að gera kröfu til þess og gangskör að því, að landhelgisvörn þeirra verði meira en nafnið eitt, verði svo góð, sem best var hún áður.

Jeg taldi rjett að taka þetta fram við þessa umr., og sje enga ástæðu til að gefa Dönum neitt eftir í þessu efni, sje ekki betur en að þeir hafi brotið sambandslögin, því vörnunum hefir verið hagað rjett eins og þau lög hefðu lagt bann gegn landhelgisvörnum af Dana hálfu.

Jeg vænti, að hæstv. stjórn hlutist til um, að landhelgisvarnir Dana verði sem hestar og best ræktar.