01.09.1919
Efri deild: 45. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1943 í B-deild Alþingistíðinda. (2003)

140. mál, landhelgisvörn

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg hefi ekki sett út á kostnaðaráætlunina. Það má vera, að hún sje hæfileg; jeg skal ekkert um það segja, því jeg hefi ekki athugað hana. Jeg býst við, að ekki sje gott að segja um kolin eða kolanotkunina, og um laun skipstjórans veit jeg, að enginn skipstjóri á botnvörpuskipi hefir svo litlar tekjur; þeir hafa víst 20 þús. og þar yfir. En samt getur verið, að hægt sje að fá mann fyrir þetta kaup.

En þetta er svo stórt mál, að jeg tel sjálfsagt, að það sje vel undirbúið. Ef á að útbúa þetta skip sæmilega, þá þurfa að vera í því herbergi handa skipstjóra, stýrimönnum og vjelstjórum. Jeg tel, að það ætti að vera útbúið á líkan hátt og ,,Islands Falk‘‘, en þá efa jeg ekki, að byggingarkostnaðurinn verður meiri en nefndin áætlar. Annars er það ekki neitt höfuðatriði, hvort skipið kostar 200,000 kr. meira eða minna, þegar ársrekstur þess er áætlaður um 300 þús. krónur.

Aðalatriðið er, að ekki sje hrapað að málinu og það sje vel undirbúið.

Það er líka mikil spurning um það, hvort hægt yrði að fá þetta skip bygt í sumar eða með haustinu.

Sem stendur er mjög örðugt að fá bygt nýtt skip, þar sem skipasmíðastöðvar hafa allar ærið að starfa til langs tíma. Að vísu mætti kaupa gamalt skip, en það væri hreinasta tilviljun, ef hentugt skip fengist.

Jeg tek því ekki aftur orð mín um það, að ekki megi hrapa að slíku stórmáli sem þetta er. Hv. Alþingi veit ekki, að hverju það gengur, en það má það til, áður en það samþykkir slíkt frv. sem þetta.

Hv. þm. Ísaf. (M. T.) gat þess rjettilega, að strandvarnir í ár hefðu verið minni en nokkru sinni áður, þegar styrjaldarárin eru talin frá.

Jeg tel sjálfsagt, að stjórnin — hverjir svo sem hana skipa — kvarti yfir þessu, og er viss um, að það verður lagfært.

Strandvarnarskipið kom í ár ekki fyr en vetrarvertíðin var að mestu liðin; olli því viðgerð á skipinu og veikindi skipshafnar. Auk þess var það við og við fjarverandi, svo rjett er, að vörnin var ónóg og ekki í því lagi, sem hv. þm. Ísaf. (M. T.) og jeg tel skyldugt vera, en jeg er viss um, að þetta verður leiðrjett.

En þó þetta verði leiðrjett, þarf, eins og nefndin rjettilega hefir tekið fram, meira en eitt skip til að gæta landhelginnar, og er jeg sammála henni um nauðsynina, sem rekur til þess, að landhelginnar sje gætt sem best.

En hitt tel jeg óforsvaranlegt, að ráðast í stórkostnað í blindni.

Jeg hefi ekkert á móti, að frv. þetta verði látið ganga til 2. umr. og jafnvel komi fram í báðum deildum.

Eitthvað mun það þó upplýsast við umræðurnar; en hitt er að minni hyggju ekki rjett, að það verði að lögum jafnóundirbúið og raun er á.