08.09.1919
Neðri deild: 58. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1956 í B-deild Alþingistíðinda. (2026)

140. mál, landhelgisvörn

Pjetur Jónsson:

Jeg lít á mál þetta frá fjárhaglegu sjónarmiði. Verð jeg á móti því, enda þótt það kunni að verða metið til fjandskapar við sjávarútveginn. Slíkt væri rangur dómur, sem jeg læt mjer standa á sama. Og hvaða dómar sem feldir verða um afstöðu mína í þessu máli, mun það ekki hafa mikil áhrif á mig. Jeg álít mál þetta svo stórt, svo fjárhagslega viðurhlutamikið, að ekki sje rjett að láta neitt gambur hafa áhrif á sig. Það er nú ljóst, hvernig okkar fjárhagur stendur í byrjun næsta fjárhagstímabils, og meðan úr því er ekki leyst hvernig við eigum að komast út úr skuldum þeim er landið er komið í, og þeim ráðstöfunum þessa þings, sem eigi verður hjá komist, en auka gjöldin langt fram úr tekjunum, þá er slíkt mál sem þetta illa undirbúið. Ekki svo að skilja að núverandi skuldir sjeu meiri út af fyrir sig en búast mátti við, þar sem ómögulegt hefir verið á stríðsárunum að ráða í hvað við tæki og gera ætti. Alt hefir verið á svo miklu reiki, að við höfum eðlilega ekki getað komið fyrir okkur fótunum fjárhagslega í öllum þeim veðrabrigðum sem á hafa gengið.

Jeg vil benda á það, að þau hlutverk, sem næst liggja, og þingið jafnvel þegar hefir tekið að sjer, skapa ekki minna en 2 milj. kr. tekjuhalla, auk annara fyrirtækja, sem ákaflega mikil þörf er að koma á stofn. ef mögulegt er. Er ekki búið að leysa úr því enn, hvernig komist verður fram úr öllum þessum þörfum. Vjer gátum t. d. ekki látið bíða lengur að hækka laun embættismanna landsins, þegar sýnilegt var, að þeir myndu flýja land, ef þeir fengju ekki svo verulega launabót, að nærri færi því, sem gert er ráð fyrir í launafrv., eins og það fór frá deildinni. Svo eru þær framkvæmdir er fjárveitingavaldið hefir tekið að sjer gagnvart atvinnuvegunum. Þær kosta mikið nú, og til þeirra verður varla varið minna en fjárlagafrv. sýnir. Alt þetta, að viðbættu því, hve stórt fjárhagsatriði mál þetta er, sýnir að það þarf mikinn fjárhagslegan undirbúning. Sú stjórn, er málið fær til framkvæmda verður að geta sýnt, að þetta sje framkvæmanlegt. Jeg efa ekki, að það kunni að verða sýnt. En það verður ekki sýnt á þessu þingi. Og þegar við vitum ekki, hvaða stjórn tekur við, þá er ekki rjett að samþykkja frv. eins og þetta, sem er hrein og bein skipun til að gera það, sem frv. greinir þegar í stað.

En hitt er rjett, að draga ekki að athuga málið til hlítar, bæði tilhögun þess alla og fjárhagslegan undirbúning. Enn fremur er þess að gæta, að frv. þetta er ekki fram komið fyr en á síðustu vikum þingtímans, og þess vegna vil jeg vísa því til stjórnarinnar með rökstuddri dagskrá, þannig hljóðandi:

„Í því trausti, að landsstjórnin útvegi sem bestar upplýsingar um tilhögun á landhelgisvörnum hjer og um byggingarkostnað á gæsluskipi og um útgerðarkostnað þess, og leggi upplýsingar þessar fyrir næsta þing, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá“.