08.09.1919
Neðri deild: 58. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1958 í B-deild Alþingistíðinda. (2027)

140. mál, landhelgisvörn

Pjetur Ottesen:

Jeg sje reyndar, að hæstv. forsætisráðh. (J. M.) stendur ekki einn að því, að vilja slá þessu mikla nauðsynjamáli á frest. Getur vel verið, að þessar raddir, sem hjer hafa heyrst, sjeu fyrirfram ákveðnar, og þess vegna sje þetta ekki neitt tilviljunarsamband milli hæstv. forsætisráðh. (J. M.) og hv. þm. S.-Þ. (P. J.). Skal jeg ekkert um það segja.

En út af því sem hæstv. forsætisráðh. (J. M.) sagði að jeg þyrfti ekki að undrast það að hann tæki svo í málið, skal jeg geta þess, að það er rjett, að hann hreyfði þessu í nefndinni eða líkum ummælum, og munu þau bókuð í fundargerðinni. En jeg verð þó að segja, að yfirleitt undrast jeg undirtektir hæstv. forsætisráðh. (J. M.) í þessu máli, bæði í nefndinni og hjer í deildinni, og þeim mun meir, sem hann hreyfir þessum mótmælum oftar.

En jeg vildi minnast á ummæli hæstv. forsætisráðh. (J. M.) í fyrri ræðu hans, er hann kvað smábáta geta komið til greina, sem millibilsúrlausn á þessu máli. (Forsætisráðherra: Jeg sagði smærri báta) Já, En þetta höfum við þegar reynt. Við höfum notað mótorbáta til strandvarna hjer á Faxaflóa sunnanverðum, og það er óhætt að segja, að sú strandvörn hefir af engu haldi komið. Botnvörpungarnir hafa fiskað innan um bátana og breitt yfir „númer“ sín. Og þótt bátarnir hafi getað náð í „númerin“, þá hefir ekki náðst í Fálkann til að hremma sökudólginn. Fje það, sem varið hefir verið til úthalds þessara gæslubáta, hefir því að engu liði komið, og hafa menn gefist upp á þessari ónýtisvörn. Það, sem að liði gæti komið í þessu efni, væri sæmilega hraðskreitt gufuskip, á við botnvörpung að stærð, eða má ske lítið eitt minna, og yrði það að vera vopnað.

En hjer er svo bráð nauðsyn á, að enginn frestur má á verða eða tómlæti af hálfu þingsins. En hinu er að sjálfsögðu gert ráð fyrir, að stjórnin fari gætilega og hrapi ekki til þessa máls eða rasi fyrir ráð fram. En hitt er sjálfsagt, að þingið sýni undirtektir sínar undir þetta mál með því að samþykkja frv. þetta, sem ræðir um að ráða hið fyrsta bót á þessari miklu nauðsyn.

Hv. þm. S.-Þ. (P. J.) fóðraði dagskrá sína með því, að fjárhagurinn væri bágur. Já, það er mikið rjett, en jeg held, að þetta sje einmitt ein af bestu og sjálfsögðustu ráðstöfununum til að bæta hið bága fjárhagsástand, að gera ráðstafanir til verndar fiskimiðunum, sem með rjettu hafa verið nefnd gullkista landsins. Það er ekki lítið fjárhagslegt tap, ef bátafloti landsins legst niður af því að fiskimiðin eru eyðilögð.

Hæstv. forsætisráðh. (J. M.) gat þess, að ekki væri mikil hætta á, að örtröð yrði mikil af útlendingum á miðum landsins fyrst um sinn. Það hefir nú sýnt sig í sumar, að stór floti útlendra botnvörpunga hefir í sumar eyðilagt fiskimið opinna báta í Garðsjónum og víðar hjer við Faxaflóa. Þeir fóru strax að koma, er stríðinu ljetti, og þeim fer stöðugt fjölgandi.

Vil jeg því mæla sterklega á móti því, að þessi rökstudda dagskrá verði samþykt, þar sem jeg álít, að með því sýndi Alþingi alt of mikið tómlæti í þessu máli.