10.09.1919
Neðri deild: 60. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1969 í B-deild Alþingistíðinda. (2039)

140. mál, landhelgisvörn

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg verð að líta svo á, að með brtt. hv. þm. Stranda. (M. P.) sje einmitt það skýrt tekið fram, sem meðmælendur frv. hafa látið í ljós sem sína skoðun, þótt sú skoðun komi ekki alls kostar ljóst fram í frv., eins og það er nú. Með henni er stjórninni ekki skipað að kaupa skipið þegar í stað heldur er lagt fyrir hana að gera það, sem hægt er og forsvaranlegt í málinu. Og það telur stjórnin sjer auðvitað skylt að gera.

Mjer heyrðist hv. þm. Borgf. (P. O.) eigna mjer það, að skotið var inn í frv. í Ed., að heimilt væri að leigja skip. En það var að eins sagt af einum hv. þm. þar, að orðið „að kaupa“ gæti merkt hvorttveggja, að kaupa og kaupa á leigu. En svo kom brtt., sem að eins heimilaði að leigja, meðan verið væri að byggja. Auðvitað verður stjórnin að gera eitthvað í málinu. Og með brtt. hv. þm. Stranda. (M. P.) er skýrt tekið fram, að það er ekki meiningin að skipa stjórninni strax að láta byggja, svo að segja undirbúningslaust. Jeg teldi það því heppilegt, að þessi brtt. væri samþykt, og vil mæla með því, að svo verði.