25.09.1919
Neðri deild: 73. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 559 í B-deild Alþingistíðinda. (204)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Frsm. fjárveitinganefndar (Bjarni Jónsson):

Jeg skal reyna að vera svo stuttorður, sem jeg má. Og skal jeg þá fyrst taka það fram, að jeg verð að láta þingið njóta sannmælis um það, að í fjárframlögum sínum til mentamálanna er það eitt rjettsýnasta þingið, sem lengi hefir setið. Nokkrar smábreytingar hefir fjárveitinganefnd gert á þessum kafla fjárlaganna, og vona jeg, að hv. þm. hafi ekkert við þær að athuga.

Það er þá fyrst að minnast á 14. liðinn á þgskj. 970. Hann var áður í till. nefndarinnar, en var tekinn út og geymdur, af því að ekki var útkljáð um, hvort Danir mundu vilja leggja fjeð fram. En nú er upplýst orðið, að svo er ekki. þess vegna er þetta aftur fram komið.

15. liðurinn er um skáld og listamenn. Fjárveitinganefnd Ed. lækkaði liðinn um 4000 kr., en Nd. nefndin getur látið sjer lynda, að styrkurinn lækki um 2000 kr., svo hann verði 20,000 kr. Vænti jeg, að þetta nái fram að ganga.

Þá eru hjer 4 liðir um ýmsa heiðursmenn, sem þingið hefir veitt ofurlítinn styrk í viðurkenningarskyni. Er lagt til, að styrkurinn verði hækkaður um 200 kr. á mann. Vænti jeg, að menn leggi ekki á móti þessu.

20. liðurinn er eiginlega leiðrjetting á villu, sem komist hefir inn, og er líklega prentvilla. Það er að eins fyrri fjárveitingin, sem á að vera svona há, vegna þess, að fyrra árið þarf að kaupa ýms verkfæri til jarðeðlisrannsóknanna. En seinna árið eiga 1500 kr. að nægja.

21. liðinn vildi Nd. nefndin færa til sama lags aftur. Sumir vilja, að styrkurinn sje veittur öllum búnaðarfjelögum, án tillits til þess, hvort þau eru í búnaðarsamböndum, en hinir, sem vilja binda styrkinn við búnaðarsamböndin, segja, að fjelögin geti gengið í samböndin, og hyggur nefndin það heppilegra fyrir samvinnuna.

22. liður er um fjárveitingu til leiðbeiningar um raforkunotkun. Það er eiginlega gamall styrkur, sem Guðmundur Jónasson verkfræðingur hefir haft, sá sem kallar sig Hlíðdal, ef menn ekki kannast við hans eigið nafn. Þessi styrkur hefir orðið til mikils gagns. því þegar Guðmundur hefir verið á ferðum sínum í þarfir vitamálanna, hefir hann oft getað brugðið sjer frá og gefið bændum og öðrum, sem óskað hafa, upplýsingar um raforkunotkun. Nefndin vill ekki láta þennan lið niður falla, því með honum er hægt að forða mörgum manni frá að ráðast í heimskuleg fyrirtæki.

23. liður er um styrk þann til flugfjelagsins, sem Ed. feldi. Vill nefndin taka hann upp aftur, og vitna jeg til þeirra orða minna, sem jeg mælti þá með styrknum.

Þá er einn liður, 39. liður 16. gr., sem nefndin hefir lagt til að falli niður. Það er hluttekning í skaða þeirra manna, sem tekið höfðu upp surtarbrand í Gilsnámu í Hólshreppi. Surtarbrandurinn var tekinn upp eftir fyrirsögn ráðunauts, sem stjórnin sendi vestur. Nefndin vildi ekki veita þessa skaðabót, en þó voru skoðanir manna þar skiftar, og hafa nefndarmenn óbundnar hendur. Jeg vil fyrir mitt leyti ekki, að bæturnar falli niður. Jeg hygg, að það sje óþarfi að vega að öllu, sem snertir Ísafjörð. Það hefir alt verið drepið, sem komið hefir nálægt því kjördæmi. Þykir mjer því, að vel megi við una, að Ísafjarðarkjördæmi fengi að halda þessum lið, og jeg mun greiða atkvæði móti því, að hann falli niður. Vona jeg, að enginn brigsli mjer um, að jeg geri þetta til þægðar háttv. þm. Ísaf. (M. T.) fyrir að hann rjeðst á þennan nafnfræga Gvend Faust. Jeg þurfti ekki að láta neitt í móti koma, en jeg hygg, að Ísfirðingar hafi sama rjett sem aðrir landsmenn.

Þá er 25. liður, 1000 kr. þóknun til Guðmundar Hjaltasonar í Tröð í Álftafirði, fyrir að bjarga mönnum úr sjávarháska. Maður þessi hefir bjargað 7 mönnum úr sjávarháska, með snarræði miklu, og lagt sjálfan sig í hættu. Jeg tel það sjálfsagt, að íslenska ríkið geri ekki ver við slíka menn en erlend ríki. Manninum kemur miklu betur að fá 1000 kr. heldur en kross eða stjörnu, enda hefir ríkið ekki slíkt glingur á boðstólum. Í sambandi við þennan lið vil jeg geta um aðra till. samskonar, sem nefndin hefir fallist á, og jeg vil leyfa mjer að mæla með, enda á sá maður hlut að máli, sem það á skilið, þar sem er 1. þm. Árn. (S. S.).

Þá er 26. liður, sem er þess efnis að fella burtu styrkinn til ekkju Jóhanns Sigurjónssonar, þar sem hann stóð. Ed hefir ætlast til, að hún fengi uppbót eins og eftirlaunafólk. En nefndin kann ekki við að búta styrkinn þannig sundur og vill heldur greiða hann hreinan og uppbótarlausan. Þess vegna hefir hún flutt liðinn aftur fyrir, þangað sem hamn var, þegar frv. fór hjeðan úr deildinni síðast.

Þá er sú brtt. á þgskj. 977, að Petru Jónsdóttur, ekkju Jóhanns Kristjánssonar, verði greiddar 100 kr. með hvoru barni, auk 300 kr. En börnin eru tvö og bæði í ómegð, annað fætt 1913, en hitt 1915. Býst jeg við, að jeg þurfi ekki að mæla frekar með þessum sjálfsagða uppeldisstyrk.

Þá er 28. brtt., um að greiða Birni Kristjánssyni uppbót á eftirlaunum hans, eftir sömu reglum sem starfsmönnum bankans. Nefndin gat ekki betur sjeð en honum bæri þessi uppbót sem öðrum eftir launalögunum. Hann hefir ekki fengið neina uppbót hingað til, og ber því að líta svo á, sem hann fái uppbótina frá þeim tíma, sem hann fjekk eftirlaun.

Þá er heimild til að veita Birni Sigurðssyni, fyrverandi bankastjóra, sem nú hefir starfað erlendis í þágu ríkisins, sömu eftirlaun sem Birni Kristjánssyni og sömu uppbót. Nefndin hefir borið þessa till. fram eftir beiðni stjórnarinnar og fallist á, að hún sje rjettmæt. Er ekki til ætlast, að hann fái þessi eftirlaun meðan hann hefir á höndum störf fyrir ríkið, heldur að eins er hann hætti þeim. Jeg býst við, að jeg þurfi ekki að halda langa tölu fyrir þessum lið, þar sem nýtur og vinsæll maður á hlut að máli.

Þá hygg jeg, að jeg hafi gert grein fyrir brtt. þeim, sem tilheyra mínum kafla og nauðsynlegar eru, og skal því láta þar við lenda. En þá skal jeg drepa á brtt. einstakra manna við 15. gr.

Er þá fyrst brtt. frá 1. þm. Reykv. (J. B.) og þm. Borgf. (P. O.), um að veita Arnóri Sigurjónssyni 400 kr. viðbót við þann styrk, sem hann hefir. Maður þessi er sonur skáldsins og alþingismannsins Sigurjóns Friðjónssonar. Þetta er ungur og gáfaður maður og hefir fengið 1600 kr. til utanfarar af fje því, sem veitt er í fjárlögum til utanfarar kennara. En þar sem slíkur styrkur er nú lægstur 2000 kr. og farið er fram á, að þessi maður njóti sömu hlunninda sem aðrir kennarar, vil jeg mæla með þessari hækkun, fyrir hönd nefndarinnar.

Þá er brtt. á þgskj. 669, frá þm. V.-Sk., (G. Sv.) um að hækka styrkinn til Þórbergs Þórðarsonar um 600 kr., eða úr 1200 upp í 1800 kr. Atkvæði nefndarmanna eru hjer óbundin, en meiri hluti nefndarinnar hallast að þessari breytingu og skal jeg svo ekki fara frekari orðum um hana, fyrir hönd nefndarinnar.

Þá er brtt. á þgskj. 972, frá þm. Barð. (H. K.), þess efnis, að fyrir 1500 komi 1200 kr. Eins og jeg hefi drepið á áður, þá lagði nefndin það til, að þessi liður fjelli niður. En þó að meiri hluti nefndarmanna hallaðist að þessari skoðun, eru atkvæði þeirra samt óbundin. Annars býst jeg við, að hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) muni gera grein fyrir afstöðu sumra nefndarmanna til þessarar till. Jeg hefi gert grein fyrir minni afstöðu til þessa máls, og skal því ekki fjölyrða um þetta frekar.

En þá hefi jeg gerst svo djarfur, að bera fram eina brtt., þótt mjer hepnaðist ekki að vinna fylgi meiri hluta nefndarinnar með mjer. Jeg hefi samt ráðist í að bera brtt. þessa fram, af því að jeg vissi, að deildin mundi líta öðruvísi á. Till. þessi fer fram á að veita Guðbrandi Jónssyni 2000 kr., til þess að halda áfram rannsókn á sögu dómkirkjunnar á Hólum og ljúka riti sínu um það. Hann fjekk 2000 kr. styrk til þess að rannsaka þessa kirkju og fleiri kirkjur hjer á landi. Mjer er kunnugt um, að hann fjekk þennan styrk með því, að stjórnin óskaði eftir vilyrði fjárveitinganefndar fyrir fjárveitingunni, enda varð hún við þeirri ósk. Þetta var líka gert með tilliti til þess, að maður þessi hafði gert landinu mikinn greiða, sem var með þeim hætti, að jeg get ekki skýrt frá honum hjer. En meðan stríðið stóð yfir var honum haldið lengi í prísund hjer á landi af þeim völdum, sem á hafinu drotnuðu. Jeg vona því, að menn verði ekki móti þessari styrkbeiðni. Það hefir sýnt sig, að þessi maður hefir orðið manna fljótastur til að koma með mjög merkilega ritgerð um þessi efni, sem fengið hefir verðlaun úr sjóði Jóns Sigurðssonar, og verðlaun úr þeim sjóði fá að eins úrvalsritgerðir. En nú á hann eftir síðara hluta þessa verks, og þar sem hann er fátækur maður og hefir orðið fyrir fjártjóni síðustu árin, þykir mjer líklegt, að þm. vilji samþykkja þessa till., til þess að honum sje hægt að ljúka við þetta merkilega verk. Jeg býst við, að hann geri hreint fyrir sínum dyrum og skili verkinu fyr en síðar, því að hann er verkmaður mikill, sem faðir hans. Það sýnist varla vera vansalaust að neita þessari styrkbeiðni, miðað við ástæðurnar.