10.09.1919
Neðri deild: 60. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1972 í B-deild Alþingistíðinda. (2043)

140. mál, landhelgisvörn

Pjetur Jónsson:

Jeg tók það fram við 1. umr. þessa máls, að það þyrfti meiri undirbúning, það dygði ekki að hrapa að því á þann hátt, sem orðalag frv. bendir til. Aðallega talaði jeg um hina fjárhagslegu hlið málsins. Mjer virðist árlegur rekstrarkostnaður vera svo mikill og athugaverður, að það þurfi einhvern fjárhagslegan undirbúning til þess að standast hann, eigi síst ef skipið á að vera svo fullkomið, að gagn verði að. Þetta er svo mikið mál, að það þarf fullkominn undirbúning, og meiri en það hefir enn þá fengið.

Í öðru lagi er það óráðið og óundirbúið, hvort skipið á að vera eitt fullkomið eða fleiri smærri skip til aðstoðar danska varnarskipinu. Þetta virðist ekki hafa verið íhugað nógu rækilega, því síður rannsakað. Þetta virðist hafa vakað fyrir einstöku mönnum í nefndinni, og því hefir komið þar til mála að afgreiða málið ekki í frv.-formi, heldur með þingsál., málinu skyldi ekki hraðað, heldur afgreitt til stjórnarinnar til rækilegs undirbúnings, og að því átti þingsál. að miða. Hitt varð þó ofan á, að drífa málið áfram með hraða, hvað sem tautaði. Það er „idealistiski“ sviminn, sem hefir sigrað í nefndinni.