10.09.1919
Neðri deild: 60. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1973 í B-deild Alþingistíðinda. (2044)

140. mál, landhelgisvörn

Pjetur Ottesen:

Jeg vil taka það fram, að þessi svimi, sem hv. þm. S.-Þ. (P. J.) brá nefndinni um, er algerlega tilhæfulaus. Nefndinni var þetta fullkomið alvörumál, og sjer hún og skilur nauðsynina á að ráða bót á þessu, miklu betur en hv. þm. S.-Þ. (P. J.), eftir framkomu hans nú að dæma. Og þó að komið hafi til tals í nefndinni að bera fram þingsál., þá þótti nefndarmönnum það, við nánari athugun, ekki nándar nærri nógu ákveðið til þess að tryggja það, að bót yrði ráðin á þeirri eyðileggingu, sem yfir vofir ella.

Um það, hvort skipið eigi að vera eitt eða fleiri smáskip, skal jeg taka það fram, að reynslan hefir sýnt, að ekkert gagn er í smáskipum. Mótorbátar koma hjer því naumast til greina.

Það var einmitt þetta, sem jeg vildi mótmæla, að nefndin hafi vaðið í villu og svima í þessu máli og sótt þetta mál meira af kappi en forsjá, eins og hv. þm. (P. J.) vildi gefa í skyn. Nefndinni er þetta fullkomið alvörumál. Og afleiðingin mun áþreifanlega sýna sig í framtíðinni, ef nú verður látið reka á reiðanum í þessu máli áfram.